Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Leggja höfuðáherslu á styttingu vinnuvikunnar

Mynd með færslu
Mynd úr safni. Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Sjúkraliðar leggja höfuðáherslu á bætt laun og styttingu vinnuvikunnar í komandi kjaraviðræðum. Kjarasamningur þeirra hefur verið laus síðan í mars og bindur Sjúkraliðafélag Íslands vonir við að nýr samningur verði tilbúinn fyrir sumarið.

Gunnar Örn Gunnarsson, framkvæmdastjóri félagsins, segir að þau hafi sömu markmið og BSRB um styttingu vinnuvikunnar og minnkun á starfshlutfalli fólks í vaktavinnu enda hafi það sýnt sig að hún sé bæði andlega og líkamlega meira krefjandi en dagvinna. Margir sjúkraliðar vinna á þrískiptum vöktum. „Þar sem ég og formaðurinn erum búin að fara núna um allt land að hitta sjúkraliða á öllum stöðum landsins þá er þetta bara fyrsta vers. Það er búið að gera tilraunaverkefni þar sem komið hefur í ljós gríðarlega góður árangur og mikil ánægja og við heyrum það bara á okkar fólki að þetta sé efst á baugi, að stytta vinnuvikuna,“ segir Gunnar Örn. Fulltrúaþing Sjúkraliðafélags Íslands krafðist þess í ályktun í vikunni að vinnuskylda í dagvinnu verði 35 klukkustundir á viku en 28 tímar hjá vaktavinnufólki. Þar með yrði vinnuvika vaktavinnufólks um 80 prósent af því sem hún er núna. 

Fulltrúar sjúkraliða hafa átt gott spjall við viðsemjendur en ekki er farið að reyna á launaliðinn, að sögn Gunnars Arnar. Fyrst var Sjúkraliðafélag Íslands að bíða eftir samningum á almenna vinnumarkaðnum og þá hafa hjúkrunarfræðingar oftar en ekki samið á undan sjúkraliðum. Nú er beðið eftir niðurstöðu um þeirra samningaviðræðum enda spegla sjúkraliðar sig í kjörum þeirra. Vonir sjúkraliða standa til að samningur verði tilbúinn í lok maí.

Fagna stuðningi heilbrigðisráðherra

Gunnar segir að orð heilbrigðisráðherra um að bæta þurfi kjör og aðbúnað sjúkraliða hafi eflt andann meðal þeirra. „28. þing Sjúkraliðafélags Íslands tekur undir áhyggjur heilbrigðisráðherra af skortinum á hjúkrunarfólki og fagnar áherslum ráðherrans á að bæta starfsumhverfið og hækka/leiðrétta laun þessara stétta. Sjúkraliðafélag Íslands treystir á stuðning heilbrigðisráðherra við gerð komandi kjarasamninga,“ segir í ályktun félagsins síðan 7. maí.

Átak til menntunar sjúkraliða

Undirmönnun hefur verið nokkur innan öldrunarþjónustu og segir Gunnar Örn að því miður hafi vandinn verið leystur með því að ráða ófaglegt starfsfólk. Nú standi til að bæta úr og í samstarfi við Landspítalann er að hefjast verkefni þar sem almennir starfsmenn spítalans geta farið í sjúkraliðanám á sjúkraliðabrú og fá sveigjanleika í störfum sínum til að geta stundað námið.