Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Leðurklætt rokk og ról

Mynd með færslu
 Mynd: Atomstation - RÚV

Leðurklætt rokk og ról

31.05.2019 - 14:06

Höfundar

Þriðja plata Atómstöðvarinnar eða Atomstation kallast Bash og var tekin upp í rokkborginni Los Angeles. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í verkið, sem er plata vikunnar á Rás 2.

Guðmundur Ingi Þorvaldsson, leikari, söngvari og tónlistarmaður leiðir Atomstation. Hann hefur verið viðloðandi tónlistarsköpun í áratugi og var/er m.a. í hljómsveitinni Tvö dónaleg haust, sem fór í gang árið 1992. Með Atomstation er það rokk og ról með stóru R-i sem er málið, fyrstu þreifingarnar voru pönkkyns en fljótlega tók þungarokkið yfir. Glyskennt, trukkandi þungarokk að hætti Guns n‘ Roses sem er undirstrikað með klæðnaði og í tilfelli þessarar plötur upptökustað, en platan var að mestu tekin upp í Cassette Recordings hljóðverinu í Los Angeles, en upptökum stjórnaði Scott Hackwith (Ramones, Iggy Pop t.d.).

Stutt og einfalt

Pönkið undirstingur plötuna á lúmska vegu. Lögin eru stutt og einföld og gítarinn oft snarpur og hrár. Öll platan er ekki nema 28 mínútur. Minnir mig smá á sólóefnið sem Duff McKagan, bassaleikari Guns n‘ Roses hefur verið að gefa út, þar sem hann sækir í pönkrætur sínar þó að Guns hulan sé að mestu leyti yfir. „Replace me“ er besta dæmið um þetta, grófur bassi og bara rokkað beint af augum. Hrá smíð og skemmtilegur saxófónn líka. Allt klabbið búið á einni og hálfri mínútu. Þetta lag er undir restina á plötunni sem hefur að geyma fleiri stílbrot frá því sem á undan fór. Lokalagið, „Alone“, er langlengsta lagið, hæglætis nýbylgjurokk og seiðandi sem slíkt. Gott lag og nokkuð pælt, flottur stálgítar t.a.m. og platan leidd fallega til lykta. En þessi lög eru alls ekki dæmigerð fyrir restina. Svo ég haldi áfram með þennan öfuga enda, „Post truth“ er vel heppnað lag, frábær gítarhljómur (stórgóður ósunginn millikafli þegar líður að lokum) og bara eitthvað að gerast. En sama er ekki hægt að segja um fyrri hluta plötunnar, því miður.

Frá fyrsta lagi, „When in Rome“ er megintónn plötunnar nefnilega sleginn, getum við sagt, strípað og stuðvænt rokk og ról og allt í lagi með það. Guðmundur fer í falsettuna, meðspilarar skila góðu verki en lögin sjálf og grúvið (sem öllu skiptir) er ekki nægilega afgerandi. Maður hefur heyrt þetta allt saman áður. Ég veit að það var ekki ætlunin að finna upp hjólið með þessari plötu en klisjurnar eru bara aðeins of margar. Þetta trukkar ágætlega („Ravens of Speed“ t.d.) en fljótlega fer manni að leiðast þófið. Það er ekki fyrr en það fer að líða á seinni hlutann sem hlutirnir breytast eitthvað (eins og ég hef rakið). Og þá fer maður að anda léttar.

Hugmynd

Guðmundur og félagar eru með stælana og útlitið á hreinu. Lagatitla og lög í réttum gír. Stundum er eins og þessar stellingar séu aðalatriðið en sjálf tónlistin aukaatriði, og þá verða hlutirnir óhjákvæmilega hálfkjánalegir. Einhvers konar rokkstjörnuleikur sem verður lítt sannfærandi. Heiðarlegri og hreinni tónn kemst í gegn undir blálokin, en ég efast um að meðlimir hafi einhvern áhuga á að elta hann sérstaklega. En hei, það er hugmynd!

Tengdar fréttir

Popptónlist

Atómstöðin – Bash