„Við erum raunverulega að sjá núna það sem er búið að vera að segja okkur í nokkuð langan tíma. En það er eins og staðreyndir tali miklu sterkar til okkar en spár,“ sagði Halldór í kvöldfréttum í sjónvarpi. „Auðvitað á sumum stöðum eru hlutirnir að gerast á ógnarhraða.“ Fjöldi hitameta hefur verið sleginn í Evrópu síðustu daga þar sem hiti hefur sums staðar farið vel yfir 40 stig.
„Lausnirnar eru til staðar en það er ekki verið að beita þeim nægilega hratt,“ sagði Halldór. „Við höfum náð árangri í því að koma með hreina orku og endurnýjanlega orku en við höfum ekki raunverulega hægt á notkun á mengandi eldsneyti eins og kolum til dæmis. Það er ennþá verið að niðurgreiða notkun á kolum.“
„Þegar almenningur sér raunveruleikann verður hann að tala í gegnum val á leiðtogum til þess að það verði tryggt að þessar breytingar gerist nægilega hratt,“ segir Halldór. Hann segir að enn sé hægt að snúa þróuninni við en að það verði erfiðara með tímanum. „Það sem maður hefur sérstaklega áhyggjur af eru afleiðingar fyrir fæðuöryggi á jörðinni.“