Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Lausnirnar til staðar en ekki beitt nógu hratt

26.07.2019 - 19:57
Mynd: Skjáskot / RÚV
Lausnirnar við loftslagsbreytingum eru til staðar en þeim hefur ekki verið beitt nægilega hratt, segir Halldór Þorgeirsson, formaður loftslagsráðs. Hann segir að þegar almenningur sjái raunveruleikann verði hann að tala í gegnum val sitt á leiðtogum til að tryggja að nógu hratt sé brugðist við þróuninni. Elín Björk Jónasdóttir veðurfræðingur segir að ekki hafi verið tekið mark á vísindamönnum undanfarna áratugi og nú sé náttúran farin að tala til fólks.

„Við erum raunverulega að sjá núna það sem er búið að vera að segja okkur í nokkuð langan tíma. En það er eins og staðreyndir tali miklu sterkar til okkar en spár,“ sagði Halldór í kvöldfréttum í sjónvarpi. „Auðvitað á sumum stöðum eru hlutirnir að gerast á ógnarhraða.“ Fjöldi hitameta hefur verið sleginn í Evrópu síðustu daga þar sem hiti hefur sums staðar farið vel yfir 40 stig. 

„Lausnirnar eru til staðar en það er ekki verið að beita þeim nægilega hratt,“ sagði Halldór. „Við höfum náð árangri í því að koma með hreina orku og endurnýjanlega orku en við höfum ekki raunverulega hægt á notkun á mengandi eldsneyti eins og kolum til dæmis. Það er ennþá verið að niðurgreiða notkun á kolum.“

„Þegar almenningur sér raunveruleikann verður hann að tala í gegnum val á leiðtogum til þess að það verði tryggt að þessar breytingar gerist nægilega hratt,“ segir Halldór. Hann segir að enn sé hægt að snúa þróuninni við en að það verði erfiðara með tímanum. „Það sem maður hefur sérstaklega áhyggjur af eru afleiðingar fyrir fæðuöryggi á jörðinni.“

Mynd: Brynjólfur Þór Guðmundsson / RÚV

„Við höfum ekki tekið mark á vísindamönnum undanfarna áratugi og nú er náttúran að tala til okkar,“ segir Elín Björk Jónasdóttir veðurfræðingur. Samkvæmt fræðunum er útlit fyrir að atburðir sem áður áttu sér stað á fimmtíu til hundrað ára fresti geti átt sér stað á nokkurra ára fresti innan fárra áratuga. Hitabylgjur verða algengari og alvarlegri.

Elín Björk bendir á að hitabylgja hafi verið í Evrópu í fyrra, aftur í júní og loks núna. „Við þurfum að vera dálítið blind á staðreyndir ef við ætlum að halda því fram að þetta sé ekki tengt,“ segir hún um hitabylgjurnar og hnattræna hlýnun af völdum útblásturs gróðurhúsalofttegunda.

„Hlýnunin er nú farin að koma aðeins við okkur sem höfum verið grandvaralaus með þetta,“ segir Elín Björk um hitabylgju í Noregi. Þar hefur hiti farið yfir 30 stig í fimmtán af átján fylkjum. Það er ekki eðlilegt segir hún og bendir á að nýtt hitamet var slegið í Bergen þrisvar sinnum í dag.

Mynd: EPA-EFE / EPA
Umfjöllun í kvöldfréttum RÚV um hitabylgjur og hnattræna hlýnun.