Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Launin til Illuga ekki fyrirframgreiðsla

11.10.2015 - 13:55
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra segir að greiðslan sem hann fékk fyrir vinnu sína fyrir Orku Energy hafi borist honum í desember 2011 og sé í raun ekki fyrirframgreiðsla þó að hún sé skráð sem slík. Gengið var frá henni formlega fyrr en í byrjun árs 2012.

Greiðslur Orku Energy til Illuga hafa verið mikið í umræðunni undanfarna daga, einkum eftir að Stundin birti frétt um að hann hefði fengið lán frá fyrirtækinu. Illugi ákvað á föstudaginn að birta launaseðil frá fyrirtækinu þar sem kemur fram að hann hafi fengið útborguð laun upp á 2.950.000 krónur eftir skatta.

Illugi segir að þetta sé vinna sem hann hafi unnið árið 2011. „Vinnuna alla hafði ég unnið og það var verið að greiða fyrir hana.“

Samkvæmt launaseðlinum færðu greitt fyrir þessa vinnu árið 2012. Engu að síður er þetta tilgreint sem fyrirframgreiðsla. Hvers vegna? „Vegna þess að ég fæ útborgað í desember 2011. Síðan færir fyrirtæki einhvern veginn bókhaldið og gengur síðan frá laununum til mín, skattgreiðslum og lífeyrissjóðsgreiðslum og öðru slíku, strax eftir áramótin.“

En er það ekki rangnefni að kalla þetta fyrirframgreiðslu þegar þetta er greitt fyrir vinnu sem þú ert sannarlega búinn að vinna? „Jú, en ég held að það hafi ekki nokkur maður séð það fyrir sér að þessi umræða kæmi upp.“

Þetta hafi ekki verið fyrirframgreiðsla í þeirri merkingu að störfin hafi verið óunnin. Illugi ítrekar að ekkert lán hafi verið veitt. „Það var erfitt að fylgjast með þeirri umræðu þegar það var orðin fullyrðing í fjölmiðlum, sem hver át upp eftir öðrum, að ég hafi fengið lán.“

Launaseðillinn sýni að hann hafi unnið verkið sem launamaður og af þessu verið greiddir skattar og lífeyrissjóðsgreiðslur. Ef af hverju dró hann svo lengi að birta þessar upplýsingar? „Ég hafði ætlað mér í gegnum þessa orrahríð alla að birta gögn um mín persónulegu fjármál með sama hætti og lög og reglur Alþingis gera ráð fyrir. Ég hafði ekki hugsað mér að fara að setja fordæmi í íslenskum stjórnmálum um að ráðherrar eða stjórnmálamenn þurfi að fara að birta gögn umfram það. Ég hafði vonast til þess að hægt væri að fara í gegnum þessa umræðu með þeim hætti.“

Hefurðu fengið aðrar greiðslur en þessa frá Orku Energy? „Nei, þetta eru greiðslurnar sem ég hef fengið frá Orku Energy. Þetta eru launagreiðslurnar mínar, þær koma þarna skýrt fram og af þeim eru greiddar skattar og skyldur.“ Þannig að þetta er eina greiðslan sem þú hefur fengið frá þessu fyrirtæki? „Þetta er eina greiðslan sem ég hef fengið frá þessu fyrirtæki.“

Illugi segir fráleitt að ætla að störf hans fyrir fyrirtæki hafi haft áhrif á störf hans sem menntamálaráðherra. Fræðimenn hafi einnig staðfest að hann hafi ekki verið á gráu svæði.

Samkvæmt launaseðlinum fékk Illugi útborgað fyrir verkið 2.950.000 krónur. Illugi segir að samið hafi verið um að hann fengi þá upphæð útborgaða. „Við sömdum um það hver útborgaða launatala yrði. Síðan reikna menn sig frá þeirri tölu til þess hvað hún þýðir fyrir skatt, síðan eru greiddar af henni skattar og skyldur.“

Illugi telur að með þessu hafi hann sýnt fram að hann hafi ekkert lán fengið frá Orku Energy.

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV