Félagsmenn Eflingar, mest ófaglærðar konur sem starfa á leikskólum, gripu í vikunni tvisvar til tímabundinna verkfallsaðgerða og eru fleiri fyrirhugaðar. Borgarstjóri sagði í viðtali við Egil Helgason í Silfrinu í morgun að staðan væri einstaklega erfið. „Ég hef miklar áhyggjur af henni. Hluti vandans er forystuleysi. Það er enginn að útskýra hvað verkalýðshreyfingin, vinnuveitendur og ríkisstjórnin var að gera síðasta vor. Hvað það felur í sér,“ sagði Dagur.
Eru ekki aðeins að semja við Eflingu
Kjarasamningar leikskólakennara eru lausir. Ef gengið verður að kröfum Eflingar munar litlu á launum háskólamenntaðra og þeirra sem ekki hafa háskólamenntun. Borgarstjóri segir það ekki ganga. „Ef við gengjum að kröfum Eflingar eins og þær eru settar fram núna erum við ekki bara að hækka laun í samræmi við lífskjarasamningana heldur til viðbótar þannig að þeir sem áttu að bíða eða fá í raun minni kjarabætur, þeir sem eru með heldur hærri laun, háskólamenntað fólk og svo framvegis, væru orðin ansi nálægt ófaglærðum í kjörum og við vitum það sem tengjast þessum samningum að það yrði aldrei samþykkt af öðrum viðsemjendum.“ Borgin sé ekki bara að semja við Eflingu, heldur allan vinnumarkaðinn.
Þá sagði Dagur og Reykjavíkurborg greiði heldur hærri laun til ófaglærðra starfsmanna leikskóla en gert sé í öðrum sveitarfélögum. Þegar álagsgreiðslur hafi verið felldar niður þar eftir bankahrunið hafið borgin ákveðið að halda áfram með þær.
Hér má sjá viðtalið í heild sinni: