Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Launamun þarf ef meta á menntun til launa

09.02.2020 - 12:48
Mynd: RÚV / RÚV
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri segir að launamunur ófaglærðra og háskólamenntaðra verði að vera til staðar, rík krafa sé um að menntun sé metin til launa í samfélaginu. Því geti borgin ekki fallist á launakröfur Eflingar.

Félagsmenn Eflingar, mest ófaglærðar konur sem starfa á leikskólum, gripu í vikunni tvisvar til tímabundinna verkfallsaðgerða og eru fleiri fyrirhugaðar. Borgarstjóri sagði í viðtali við Egil Helgason í Silfrinu í morgun að staðan væri einstaklega erfið. „Ég hef miklar áhyggjur af henni. Hluti vandans er forystuleysi. Það er enginn að útskýra hvað verkalýðshreyfingin, vinnuveitendur og ríkisstjórnin var að gera síðasta vor. Hvað það felur í sér,“ sagði Dagur.

Eru ekki aðeins að semja við Eflingu

Kjarasamningar leikskólakennara eru lausir. Ef gengið verður að kröfum Eflingar munar litlu á launum háskólamenntaðra og þeirra sem ekki hafa háskólamenntun. Borgarstjóri segir það ekki ganga. „Ef við gengjum að kröfum Eflingar eins og þær eru settar fram núna erum við ekki bara að hækka laun í samræmi við lífskjarasamningana heldur til viðbótar þannig að þeir sem áttu að bíða eða fá í raun minni kjarabætur, þeir sem eru með heldur hærri laun, háskólamenntað fólk og svo framvegis, væru orðin ansi nálægt ófaglærðum í kjörum og við vitum það sem tengjast þessum samningum að það yrði aldrei samþykkt af öðrum viðsemjendum.“ Borgin sé ekki bara að semja við Eflingu, heldur allan vinnumarkaðinn. 

Þá sagði Dagur og Reykjavíkurborg greiði heldur hærri laun til ófaglærðra starfsmanna leikskóla en gert sé í öðrum sveitarfélögum. Þegar álagsgreiðslur hafi verið felldar niður þar eftir bankahrunið hafið borgin ákveðið að halda áfram með þær.  

Hér má sjá viðtalið í heild sinni:

Mynd: RÚV / RÚV

Segir verslunum og veitingastöðum hafa fjölgað 

Kaupmenn hafa gagnrýnt þá ákvörðun borgaryfirvalda að fjölga göngugötum í miðborginni. Egill Helgason þáttastjórnandi spurði borgarstjóra um réttmæti þeirra áforma nú þegar verslun eigi erfitt uppdráttar. Dagur sagði að verslun væri að breytast, bæði hér á landi og annars staðar í heiminum. Verið væri að loka fjölda verslunarmiðstöðva í útjaðri borga bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Hann benti á að áður fyrr hafi verið langir biðlistar eftir verslunarrýmum í Kringlunni en að það sé liðin tíð. Það sé miðbærinn sem sé í sókn núna en ekki í vörn líkt og undanfarin 30 ár. Um það þurfi ekki að deila og að borgin hafi fengið Rannsóknarsetur verslunar og þjónustu til að kanna stöðuna og niðurstaðan hafi verið sú að verslunum og veitingastöðum í borginni hafi fjölgað frá 2015 til 2019. 

Fjölgunin er að hluta vegna þjónustu við ferðamenn en líka vegna annars konar verslana, sagði Dagur. „Verslun er um allan heim að enduruppgötva miðborgir.“ Víða um heim sé verið að breyta miðborgum og gera þær meira aðlaðandi. Slíkt hafi verið gert í Reykjavík, til dæmis á Granda, Hlemmi og Hverfisgötu.