
Látinn meta kostnað vegna umdeilds hafnargarðs
Reykjavík Developments hefur síðustu ár unnið að framkvæmdum og uppbyggingu þar sem áður var bílastæði við hús Tollstjóra. Þar undir voru hafnargarðar frá því á fyrri helmingi síðustu aldar, sem komu í ljós þegar byrjað var að grafa. Vitað var af hafnargarði sem gerður var á árum fyrri heimsstyrjaldar. Deilt var hinsvegar um hafnargarð sem fannst, og reistur var árin 1928. Forráðamenn borgarinnar andmæltu því að þetta væru fornminjar. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra var á annarri skoðun og beitti sér fyrir því að hafnargarðurinn yrði friðaður. Það kom svo í hlut Sigrúnar Magnúsdóttur, starfandi forsætisráðherra, að friða hafnargarðinn.
Þeir sem byrjaðir voru á framkvæmdum voru ósáttir og töldu mikinn kostnað hljótast af því, umfram það sem gera hefði mátt gera ráð fyrir. Þeir kröfðust því bóta upp á meira en hálfan milljarð króna og höfðuðu mál.
Í matsbeiðninni sem samþykkt var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag er meðal annars farið fram á að metinn verði heildarkostnaður Reykjavík Developments af fornleifarannsóknum og undirbúnings- og eftirvinnslu vegna hafnargarðanna tveggja sem voru undir bílastæðinu. Einnig á að meta kostnað við hvorn hafnargarðinn um sig, þann yngri og eldri, og hversu mikið kostnaður fyrirtækisins jókst vegna krafna Minjastofnunar. Þá er sérstaklega spurt hversu mikil áhrif forsætisráðuneytisins hafi haft á það að uppsteypa við framkvæmdirnar tafðist.