Láta veiruna ekki hafa áhrif á bæjarbraginn

19.03.2020 - 16:51
Mynd með færslu
 Mynd:
Vestmannaeyjabær ætlar að sýna myndbrot af menningarlífi bæjarins á Facebook daglega og minna þannig á blómlegt menningarlíf á skrítnum tíma. Bæjarstjóri segir mikilvægt að láta utanaðkomandi ógn hafa sem minnst áhrif á samfélagið.

Til þess að minna Vestmannaeyinga á að þar ríkir blómleg menning og mannlíf þrátt fyrir skrítna tíma ætlar Vestmannaeyjabær að birta nýtt myndefni daglega á Facebook-síðu bæjarins. Á hverjum degi klukkan 10 verður því hægt að sjá nýtt eða gamalt myndbrot af menningarlífi bæjarins. 

Hefur ekki áhrif á eðli samfélagsins

„Við skulum muna að Vestmannaeyingar eru ríkir af menningu, mannlífi og samheldni. Minnum okkur regulega á það og látum utanaðkomandi ógn hafa sem minnst áhrif á þetta eðli samfélagsins,“ segir Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri. Hún segir mikilvægt að halda ró og yfirvegun þótt ástandið sé skrítið og erfitt. Sjö kórónaveirusmit hafa greinst í Vestmannaeyjum. Hundrað þrjátíu og þrír eru í sóttkví, þar á meðal Íris. 

Myndefni víða að

Til að byrja með á meðal annars að birta myndefni frá Safnahúsinu sem sýnir hina ýmsu viðburði síðustu ára. Til dæmis myndbönd frá 100 ára kaupstaðarafmæli bæjarins og framsögu Þórólfs Guðnasonar um lífið í Vestmannaeyjum frostaveturinn mikla 1918. Þá verður fólk hvatt til að deila myndbrotum með eyjaskeggjum næstu vikurnar.

Syngja fyrir íbúa

Hér fyrir neðan má sjá nemendur í Grunnskóla Vestmannaeyja syngja fyrir íbúa í Hraunbúðum. Það gerðu þeir bæði í gær og í dag og stefna á að halda því áfram meðan hægt er.

Höfum öll hlutverki að gegna

Íris segir okkur öll hafa mismunandi hlutverki að gegna. Það sé gott að gleðja og tæknin geri okkur kleift að eiga margs konar samskipti úr fjarlægð. Samfélagið í Eyjum sé sterkt og hafi oft þurft að takast á við stór og vandasöm verkefni, þetta sé eitt þeirra. 

 

Úlla Árdal
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi