Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Langþráð vegagerð hafin á Langanesströnd

22.08.2019 - 12:30
Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson
Hafnar eru framkvæmdir við nýjan veg á Langanesströnd milli Bakkafjarðar og Þórshafnar. Vegurinn er hluti af aðgerðum til að styrkja byggð á þessu landsvæði og sveitarstjóri Langanesbyggðar segir að áratuga barátta fyrir bættum samgöngum sé loks að skila sér.

Ríflega 20 kílómetrar verða endurbyggðir og lagðir bundnu slitlagi í þessari lotu endurbóta á veginum um Langanesströnd. Þetta er leiðin austan frá Skeggjastöðum í Bakkafirði að Gunnólfsvík í Finnafirði. Héraðsverk vinnur verkið fyrir 596 milljónir króna.

Áratuga barátta að skila sér

„Nú er að ljúka áratuga baráttu fólks hér á svæðinu fyrir góðum samgöngum milli Bakkafjarðar og Þórshafnar,“ segir Elías Pétursson, sveitarstjóri Langanesbyggðar. Vegurinn á að vera tilbúinn haustið 2021 og þá verður eftir leiðin um Brekknaheiði austan Þórshafnar, aðeins um sex kílómetrar. Í greinargerð með samgönguáætlun segir að ráðast skuli í þá framkvæmd að lokinni vegagerð á Langanesströnd og þar segir Elías að tvær veglínur séu til skoðunar. „Þannig að ég lít svo á að hönnun á þeirri leið sé hafin.“

Segir veginn styrkja Langanesbyggð alla

Bundið slitlag um Langanesströnd og Brekknaheiði er ein þeirra aðgerða sem stjórnvöld boðuðu í áætlun um að efla byggð á Bakkafirði. Elías segir veginn algert grundvallaratriði til að viðhalda byggðinni þar. „En um leið styrkir þetta bara Langanesbyggð alla mjög og svæðið allt. Vegna þess að þetta mun eflast sem ferðamannaleið og þar af leiðandi styrkir þetta mjög stórt svæði.“