Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Langfarsælast að hafa Sundabraut í göngum

07.10.2019 - 21:02
Mynd: RÚV / RÚV
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri telur að Sundabraut í göngum yrði langfarsælasta útfærslan á samgöngumannvirkinu. Hann hafi verið á þeirri skoðun í meira en áratug.

Hér má horfa á viðtalið í heild sinni. 

Bent hefur verið á tvo kosti við þverun Kleppsvíkur. Annars vegar með lágbrú úr Gufuneshöfða yfir á athafnasvæði Samskipa við Holtaveg við Holtagarða og hins vegar jarðgöng sem myndu koma á land miklu utar. Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra hefur sagt lágbrú betri kost því tengingar við hana inn í Grafarvog annars vegar og við Sæbraut hins vegar eru betur staðsettar. 

Einar Þorsteinsson ræddi við Dag B. Eggertsson borgarstjóra í Kastljósi í kvöld, meðal annars um Sundabraut. Þar sagði borgarstjóri að Sundabraut hafi verið í sérstöku ferli allan síðasta vetur. „Og niðurstaðan þar var sú að Sundabraut í göngum er fyrsti kostur. Fyrirvarinn sem var settur við það að hafa hana í lágbrú er einmitt röskunin sem verður á hafnarsvæðinu, röskunin fyrir mikilvæga flutninga til og frá landinu.“

„En við höfum hinsvegar sagt að við séum tilbúin til að skoða þetta með ráðuneytinu. Við Sigurður Ingi  munum án efa setjast niður fljótlega til að fara yfir hvernig það verði gert en ég hef haft þá sannfæringu alveg síðan ég leiddi samráð við íbúa í Laugardal og í Grafarvogi fyrir meira en tíu árum reyndar, að Sundabraut í göngum væri langfarsælasta niðurstaðan. Og það hefur reyndar verið yfirlýst stefna Reykjavíkurborgar alveg frá upphafi árs 2008.“