Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Langar í aðra Michelin stjörnu

17.02.2020 - 20:03
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Tilfinningin er mjög góð. Við erum ótrúlega ánægð og glöð með lífið og tilveruna,“ segir Gunnar Karl Gíslason, eigandi veitingastaðarins Dill sem í kvöld endurheimti Michelin stjörnuna sem staðurinn missti í fyrra.

Gunnar Karl er staddur í Noregi þar sem hann fagnar áfanganum með kollegum sínum í veitingabransanum. Hann segir þetta mikla viðurkenningu fyrir staðinn og vonast til að útnefningin opni fleiri möguleika í veitingabransanum á Íslandi.

Flutti heim til að endurheimta stjörnuna

Þegar Dill missti stjörnuna í fyrra lýsti Gunnar Karl því yfir að hann ætlaði að endurheimta stjörnuna, hvað sem það kostaði. Hann var þá búsettur í New York en ákvað að snúa aftur heim og einbeita sér að fullu að þessu markmiði sínu. „Það voru miklar breytingar en þegar þú skrúfar hausinn rétt á og veður í málin þá yfirleitt gerast góðir hlutir.“

Mikill vill meira

Gunnar Karl segir heilmikla vinnu að baki Michelin stjörnu og er óspar á lof í garð starfsfólks veitingastaðarins. Útnefningu Michelin stjörnunnar fylgir enginn rökstuðningur og því getur Gunnar Karl ómögulega bent á hvað það var sem skilaði Dill aftur stjörnunni. Eina sem hann veit er að staðurinn er á réttri braut. „Michelin passar upp á að enginn hefur hugmyndum um hvað þeir eru að gera. Þetta eru einhver mestu leynisamtök sem til eru í heiminum. Enginn veit nákvæmlega hvað þú þarft að gera, hvað þú þarft að segja, hvernig þú átt að byggja veitingastaðinn.“

Spurður hvort markmið næsta árs sé að halda stjörnunni eða bæta við annarri stendur ekki á svarinu: „Í gamla daga sagði ég að ég yðri rosalega hamingjusamur með eina stjörnu en svo er það þannig að þegar þú ert með eina þá langar þig í tvær.  Eins og sagan segir, mikill vill meira.“