Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Landsvirkjun tapaði rúmum 1,2 milljörðum vegna ljósboga

23.11.2019 - 10:19
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd
Tekjutap Landsvirkjunar, vegna ljósboga sem myndaðist í kerskála þrjú í álverinu í Straumsvík í júlí, nemur rúmum 1,24 millj­örðum íslenskra króna, nú það sem af er ári. 

Hefur áhrif á rekstrarniðurstöður fyrirtækisins

Í árshlutauppgjöri Landsvirkjunar fyrir fyrstu níu mánuði ársins segir að tap vegna tímabundinnar stöðvunnar kerskálans sjáist í rekstrarniðurstöðum fyrirtækisins á fjórðungnum. 

Þá hafi einnig afurðaverð stórra viðskiptavina verið lágt og þróun álverðs haft neikvæð áhrif á tekjur, segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar í tilkynningu á vef Kauphallar. Ytri aðstæður hafi því haft áhrif á afkomu félagsins það sem af er ári.

„Þrátt fyrir þetta hélt efnahagur fyrirtækisins áfram að styrkjast á þriðja ársfjórðungi,“ er haft eftir Herði í tilkynningunni. Matsfyrirtækið Moody's hækkaði lánshæfieinkunn fyrirtækisins nú í mánuðinum sem forstjórinn segir staðfesta bætta fjárhagsstöðu félagsins. 

Hagnaðurinn svipaður og í fyrra

Hagnaður Landsvirkjunar var um ellefu milljarðar króna þessa fyrstu níu mánuði ársins, sem svipar til ársins í fyrra. Nettó skuldir félagsins lækkuðu um rúma tuttugu milljarða króna á tímabilinu. Rekstrartekjur félagsins drógust saman um sex komma sex prósent á milli ára og voru rúmir 46 milljarðar í ár. Morgunblaðið greindi frá. 

Hörður segir sjóðsstreymi áfram sterkt í rekstrinum. Handbæru fé frá rekstri, sem var um 27,6 milljarðar króna á tímabilinu, hafi að mestu verið varið í að lækka skuldir. Þá séu horfur í vatnsbúskap Landsvirkjunar í upphafi vatnsárs 1. október góðar.

Áhrif ljósbogans á Rio Tinto á Íslandi óljósari

Slökkt var á öllum 160 kerjum kerskála þrjú í álverinu Rio Tinto í Straumsvík í júlí í kjölfar ljósbogans, sem olli miklu tjóni. Endurræsing fyrstu kerjanna hófst í lok ágústmánaðar og er henni nú lokið.

Bjarni Már Gylfason, upplýsingafulltrúi fyrirtækisins segir í samtali við fréttastofu, að fjárhagslegt tjón álversins vegna þessa liggi ekki fyrir að svo stöddu. Það verði líklegast ekki fyrr en á nýja árinu sem það skýrist.

Það sé þó ljóst að framleiðslugeta félagsins sé minni og áætlað er að hún dragist saman um 21 þúsund tonn á árinu vegna stöðvunarinnar. Á mbl.is segir að framleiðslugeta álversins hafi verið áætluð 213 þúsund tonn í ár.