Jöklar á Íslandi hafa minnkað um sem nemur flatarmáli átta Þingvallavatna á átján árum. Þetta er mesta einstaka breyting sem hefur orðið á íslensku landslagi á tímabilinu. Eitt þeirra fyrirtækja sem á mikið undir jöklum er Landsvirkjun. Margar stærstu virkjanir fyrirtækisins eru knúnar með vatni sem kemur að mestu undan jöklum. Landsvirkjun hefur fylgst náið með jöklum allt frá árinu 1990, og stundað eigin rannsóknir frá 2003.
„Rúmmál jökla hefur þegar minnkað töluvert mikið. Og það mun halda áfram að minnka,“ segir Óli Grétar Blöndal Sveinsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Landsvirkjunar. „Samhliða því mun rennsli fyrst vaxa og um miðja þessa öld mun rennsli ná hámarki og haldast hátt í töluverðan tíma. En svo er því spáð að eftir 200 ár verði jöklarnir horfnir.“
Það er ykkar spá?
„Það er okkar spá og spá annarra líka. Þetta tengist loftslagsbreytingum og þeirri hlýnun sem allir eru að verða varir við.“
Óli Grétar segir að á næstu misserum þurfi Landsvirkjun að ákveða hvort fyrirtækið ætlar að nýta þau tækifæri sem fylgja auknu rennsli undan jöklum. Nauðsynlegt sé að ráðast í töluverða fjárfestingu ef fullnýta eigi það vatnsafl.