Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Landsréttur vísar máli Sigur Rósar aftur í hérað

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Gígja - RÚV
Landsréttur felldi í dag úr gildi úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem máli héraðssaksóknara gegn liðsmönnum Sigur Rósar var fellt úr gildi. Var héraðsdómi gert að taka málið til efnislegrar meðferðar. „Vonsvikinn,“ segir Bjarnfreður Ólafsson, lögmaður Sigur Rósar-manna. Hann vildi þó ekki tjá sig frekar þar sem hann hafði ekki séð dóm Landsréttar.

Krafa liðsmanna Sigur Rósar um frávísun var byggð á reglu um bann við tvöfaldri málsmeðferð. Þeir töldu að þeim hefði verið gerð refsing vegna þeirra brota sem þeir voru ákærðir fyrir. 

Í greinargerð verjanda þeirra kom fram að þeir hefðu þegar greitt 76,5 milljónir vegna álagsbeitingar ríkisskattstjóra eftir að ríkisskattstjóri gerði breytingar á opinberum gjöldum þeirra undir lok síðasta árs. 

Bæði núverandi og fyrrverandi liðsmenn hljómsveitarinnar eru ákærðir fyrir skattalagabrot en þeim er gefið að sök að hafa ekki talið fram tekjur eða arðgreiðslur. Þeir neituðu allir sök þegar málið var þingfest en skattsvikin eru talin nema 150 milljónum. 

Þá er Jón Þór Birgisson eða Jónsi ákærður ásamt endurskoðanda sínum fyrir skattsvik í tengslum við samlagsfélagið Frakk. Þau brot nema samkvæmt ákærunni 146 milljónum króna

Eignir í eigu þriggja liðsmanna voru kyrrsettar í desember 2017 en í greinargerð Jóns Þórs kom fram að tollstjóraembættið hefði kyrrsett hjá honum þrettán fasteignir, tvo bíla, tvö mótorhjól, sex bankareikninga og hlutafé. 

Í lok sama árs lauk síðan rannsókn skattrannsóknarstjóra og í mars var liðsmönnum sveitarinnar tilkynnt að máli þeirra hefði verið vísað annars vegar til héraðssaksóknara og hins vegar ríkisskattstjóra.