
Landsréttur staðfestir hæfi Arnars Þórs
Starfsmaðurinn höfðaði mál á hendur Samgöngustofu þar sem tekist var á um hvort vinnustundir sem hann varði í ferðir á vegum stofnunarinnar skyldu flokkast sem vinnustundir. Þetta voru annars vegar vinnuferðir frá Íslandi til Tel Aviv í Ísrael og til Sádi Arabíu.
Starfsmaðurinn krafðist þess að Arnar Þór viki sæti sem dómari í málinu þar sem í málinu reyndi verulega á EES-rétt, ESB-rétt og afleiddar gerðir ESB-réttar sem hefðu verið innleiddar í íslenskan rétt. Vísaði starfsmaðurinn til blaðagreinar sem Arnar Þór skrifaði í Morgunblaðið í tengslum við umræðuna um þriðja orkupakkann.
Taldi hann að hægt væri að draga óhlutdrægni Arnars Þór í efa út frá þeim skoðunum sem hann lét í ljós í greininni; að vilji dómarans stæði til þess að EES-réttur gilti ekki hér á landi.
Arnar Þór hafnaði því sjálfur að hann væri vanhæfur í málinu og sagði í úrskurði sínum að þetta væru sjónarmið sem hann hefði oft haldið fram. Í þeim fælist ekki gagnger andstaða við Evrópurétt.
Landsréttur segir að ummæli Arnars Þórs í greininni og viðtalinu hafi með almennum hætti tekið til innleiðingar reglna á sviði EES-samningsins í íslenskan rétt. „Enda þótt orkað gæti tvímælis hvort sú þátttaka hans í umræðu á opinberum vettvangi sem í ummælunum fælust væri samrýmanleg starfi hans væri ekki efni til að líta svo á að með þeim hefði hann tjáð sig um atriði sem ágreiningur í málinu lyti að á þann hátt að draga megi óhlutdrægni hans með réttu í efa,“ segir Landsréttur.