Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Landsréttur snýr við úrskurði í máli Þorsteins

Mynd með færslu
 Mynd: Landsréttur
Landsréttur hefur fellt úr gildi úrskurð Héraðsdóms Reykjaness sem vísaði í lok janúar frá alvarlegasta ákæruliðnum á hendur Þorsteini Halldórssyni. Héraðsdómur þarf því að taka ákæruliðinn til meðferðar.

Þorsteinn, sem var í maí dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn ungum pilti , var ákærður í september fyrir fimmtíu kynferðisbrot gegn öðrum pilti.

Dómari við Héraðsdóm Reykjaness vísaði frá alvarlegasta ákæruliðnum þar sem Þorsteinn er ákærður fyrir kynferðisbrotin. Dómarinn taldi að framsetning sakargifta í ákæruliðnum samrýmdist ekki  lögum um meðferð sakamála og væri til þess fallin að torvelda Þorsteini mjög að taka til varna.

Hin meintu kynferðisbrot væru hvorki tímasett né staðsett að öðru leyti en að þau væru framin frá árinu 2015 og fram til 21. september 2017 og á ýmsum stöðum á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni þess.

Landsréttur var þessu ósammála og segir í dómi sínum að sakargiftum á hendur Þorsteini sé lýst með nægilega greinargóðum hætti í ákærunni.

Þorsteinn krafðist þess einnig að öðrum ákæruliðnum yrði vísað frá dómi en hvorki héraðsdómur né Landsréttur féllust á það. Þar er honum meðal annars gefið að sök að hafa sent kynferðislegar myndir af piltinum til óþekktra aðila á samskiptamiðlum.