Landsréttarmálið tekið fyrir 5. febrúar

16.09.2019 - 17:12
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Munnlegur málflutningur á Landsréttarmálinu fyrir yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu verður 5. febrúar 2020. Þetta kemur fram í bréfi sem málsaðilar fengu í dag.

Málsaðilar hafa til 4. febrúar að skila gögnum í málinu og verður svo málflutningur daginn eftir, þann 5. febrúar fyrir hádegi. Þá er einnig búið að skipa 17 dómara í málið.  

Yfirdeild Mannréttindadómsstóls Evrópu tók afstöðu til 21 úrskurðar í síðustu viku en ákvað að taka aðeins eitt mál fyrir. Það er Landsréttarmálið svokallaða, áfrýjun íslenska ríkisins á úrskurði neðri deildar dómstólsins um að ekki hafi verið rétt staðið að skipun dómara við Landsrétt.

Mannréttindadómstóllinn dæmdi í mars síðastliðnum að íslenska ríkið hefði brotið gegn 6. grein Mannréttindasáttmála Evrópu. Íslenska ríkið var dæmt til að greiða um 15 þúsund evrur eða rúmlega tvær milljónir króna í málskostnað. Sigríður Andersen sagði af sér sem dómsmálaráðherra eftir að Mannréttindadómstóllinn dæmdi ríkið í mars. 

Það gæti tekið yfirdeildina allt að 12-18 mánuði að komast að niðurstöðu í málinu. Það er afar sjaldgjæft að yfirdeild MDE taki upp mál sem fjallað hefur verið um í neðri deildinni. Það gerist í um fimm prósent tilvika og þykir það til marks um alvarleika málsins að yfirdeildin hafi samþykkt að taka það fyrir. 

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi