Landspítali slær pinnana frá Össuri ekki út af borðinu

25.03.2020 - 11:22
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Við erum að prófa þessa pinna á tveimur heilsugæslustöðvum í dag og erum að gera þetta aðeins öðruvísi í dag en í gær,“ segir Karl G. Kristinsson, yfirlæknir sýkla-og veirufræðideildar Landspítalans. Spítalinn hefur ekki gefið upp alla von um að sýnatökupinnarnir frá stoðtækjaframleiðandanum Össuri virki þótt fyrstu niðurstöður hafi ekki verið jákvæðar.

Karl segir í samtali við fréttastofu að ekki hafi verið gerðar nógu margar prófanir með pinnunum í gær.  Össur á 20 þúsund sýnatökupinna sem vonir höfðu verið bundnar við að hægt væri að nota.

Pinnarnir eru ekki framleiddir af Össuri heldur eru rekstrarvara sem var til á lager og hafa verið notaðir við samsetningu í framleiðsludeild fyrirtækisins.  Fyrirtækið bauðst til að láta vöruna í té ef hægt væri að nota hana til að skima fyrir COVID-19. 

Karl segir að annar háttur verði hafður á í dag þar sem pinnarnir verða notaðir á tveimur heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu.  Karl viðurkennir að hann sé ekkert ýkja bjartsýnn því fyrstu niðurstöður í gær hafi ekki verið jákvæðar en of snemmt sé þó að slá þá út af borðinu.

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, upplýsingafulltrúi Íslenskrar erfðagreiningar, sagði í samtali við fréttastofu í morgun að niðurstaða fyrirtækisins væri sú að pinnarnir frá Össuri virkuðu ekki til að skima fyrir COVID-19.  Hún segir að pinnarnir sem eru í notkun séu ekki þessir pinnar heldur aðrir sýnatökupinnar sem takmarkaðar birgðir eru til af. „Þetta eru vonbrigði en vonir eru bundnar við sendingar frá Kína sem eru væntanlegar næstu daga.“

Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir, hefur talað um það á blaðamannafundum að heimsskortur sé á þessum sýnatökupinnum. Veirufræðideild Landspítalans hafi fengið misvísandi skilaboð frá birgjum og nýverið var sending með 5.000 sýnatökupinnum skorin niður um þrjú þúsund pinna.

Karl segir að nú séu til um þúsund sýnatökupinnar og von er á þúsund til viðbótar í dag. „Við erum komnir með pakkann en erum ekki búnir að kíkja ofan í hann. Við skulum bara vona að þetta séu þeir.“ 

10.658 sýni hafa verið tekin á Íslandi síðan í lok febrúar. Nokkuð hefur dregið úr sýnatökum síðustu daga sem rekja má til skorts á þessum pinnum.  Í gær voru til að mynda aðeins tekin 357 sýni og daginn áður 183.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi