Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Landspítali með allar klær úti í leit að öndunarvélum

20.03.2020 - 17:30
epa08309858 A patient suffering from Covid-19 arrives at the MontLegia hospital near Liege, Belgium, 20 March 2020. Countries around the world are taking increased measures to stem the widespread of the SARS-CoV-2 coronavirus which causes the Covid-19 disease.  EPA-EFE/JULIEN WARNAND
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Í morgun lenti fraktflugvél með sendingu af öndunarvélum fyrir Landspítalann, gjörgæsluöndunarvélum af bestu gerð. Starfsfólk þjónustusviðs spítalans vinnur baki brotnu að því að tryggja birgðir af lyfjum, hlífðarbúnaði og lækningatækjum. Það eru óvissutímar, allt á fleygiferð og forsendur breytast oft á dag. Stefnt er að því að útvega enn fleiri öndunarvélar. 

Gjöf frá velunnurum

„Í morgun kom talsvert af vélum sem við erum að vísu ekki alveg búin að skoða, erlendis frá. Líklega fimmtán, svo erum við að reyna að útvega aðrar vélar sem eru að koma fljótlega,“ segir Jón Hilmar Friðriksson, framkvæmdastjóri þjónustusviðs Landspítalans. Vélarnar eru gjöf frá velunnurum í Bandaríkjunum. Þessu til viðbótar er útboð í gangi. „Við teljum að við verðum vonandi mjög fljótlega komin með fjörutíu til rúmlega fimmtíu öndunarvélar. Við erum í viðræðum og bara með allar klær úti.“
Jón Hilmar á þarna við flóknar öndunarvélar sem notaðar eru á gjörgæslum. Landspítalinn á núna 26 slíkar vélar, hluti líklega í notkun, við bætast svo þær vélar sem lentu í morgun. Að auki eru til ferðavélar og aðrar öndunarvélar sem ekki eru eins öflugar en gætu gagnast sumum sjúklingum. Þá bendir Jón Hilmar á að sumum svæfingarvélum megi breyta í öndunarvélar.

Vélarnar 26 komnar á aldur en í lagi

Vélarnar 26 sem til eru á Landspítalanum eru komnar á aldur, til stóð að skipta þeim út yfir tveggja ára tímabil. Eru þær rekstrarhæfar? „Þetta eru alveg vélar sem eru að standast en eru kannski aðeins viðhaldsfrekari en nýrri vélar. Ég veit ekki til annars en að það gangi ágætlega og planið fyrir þennan faraldur var að skipta þeim út yfir tvö ár.“

Versta spá gerir ráð fyrir 50 á gjörgæslu 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Starfsmaður Landspítala í hlífðargalla.

Líklegt er að þörf fyrir öndunarvélar fari vaxandi á næstunni. Sóttvarnalæknir bað vísindamenn hjá Háskóla Íslands, Landlæknisembættinu og Landspítala að gera spálíkan um líklega þróun faraldursins hér og álag á heilbrigðiskerfið. Vísindamennirnir gera ráð fyrir því að faraldurinn nái hámarki hér um miðjan apríl og svartsýnustu spár þeirra benda til þess að þá kunni 200 að þurfa að leggjast inn á sjúkrahús og 50 þurfi á gjörgæslu að halda - hluti þessa hóps mun að öllum líkindum þurfa öndunarvél. 

Öndunarvélar gull í heimsfaraldri

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
COVID-19 gámurinn við Landspítalann.

Öndunarvélar geta skipt sköpum í meðferð fólks sem veikst hefur alvarlega af COVID-19 og eftirspurnin er mikil, allir vilja það sama enda geisar heimsfaraldur og margir spítalar voru ekki viðbúnir fyrir veldisvöxt tilfella. Framleiðendur í Þýskalandi, Bretlandi og á ítalíu hafa stóraukið framleiðslugetu - en framleiðslan er engu að síður tímafrek. Vestanhafs er til skoðunar að bílaframleiðendur framleiði öndunarvélar - og hópur verkfræðinga og hönnuða vinnur að því að finna leiðir til að framleiða öndunarvélar með því að nota þrívíddarprentaða íhluti og styðjast við framleiðslulýsingar sem opnar eru öllum á netinu. 

Framleiðslugetan vonandi að aukast í Kína

Jón Hilmar segist finna fyrir því að það sé þyngra að nálgast ýmsan búnað. Óháð veirunni sé þó í venjulegu árferði töluverð bið eftir því að fá öndunarvélar afhentar. Nú biðji Landspítalinn, og fjöldi annarra spítala víða um heim, um að fá vélar afgreiddar með hraði. 

Einhver ríki virðast að sögn Jóns Hilmars hafa lokað fyrir útflutning á lækningabúnaði. Á móti kemur að Evrópusambandið hyggst ekki neita að selja Íslandi og öðrum EFTA-ríkjum búnað, líkt og leit út fyrir í gærkvöldi. „Það væntanlega hjálpar til og svo náttúrulega eftir því sem maður les um og fær fréttir af þá er framleiðslugetan í Kína að aukast, það léttir vonandi líka á.“

Staðan breytist oft á dag

Hvernig er birgðahaldið á spítalanum almennt, þegar við horfum til hlífðarbúnaðar, sýnatökupinna, lyfja?

„Þetta er náttúrulega allt að breytast á hverjum degi en eins og við sjáum, hvað varðar spítalann þá eru þessi helstu neyðarlyf sem eru skilgreind og vökvar og annað slíkt, það virðist vera í ásættanlegu lagi, ekkert neyðarástand þar á þessum tíma. Varðandi hlífðarbúnað þá teljum við okkur líka eiga nóg í bili en við erum líka að reyna að fá meira því það er enginn sem veit hversu umfangsmikið þetta verður og hversu lengi.“ Í ljósi óvissunnar sé unnið hörðum höndum að því að útvega meiri búnað. Jón Hilmar telur að almennar lyfjabirgðir á Íslandi séu góðar en segir erfitt að spá fyrir um þróunina næstu mánuði. 

Innflutningsaðilar áhyggjufullir

Það er eitt að panta og kannski annað að fá afhent, er mikið óöryggi þegar kemur að afhendingu á því sem þið hafið pantað og telurðu að það taki langan tíma að fá öndunarvélarnar og aðrar vörur til landsins?

Hingað til hefur þetta gengið ágætlega en maður heyrir það hjá innflytjendum og okkar birgjum að auðvitað eru áhyggjur af þessu og svona þessi óvissa. Við höfum ekki orðið verulega fyrir þessu enn þá en sannarlega er óvissa víða.“

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV