Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Landsmenn hafa áhyggjur af hlýnun jarðar

26.06.2019 - 14:25
epa06124212 Emissions are seen from a factory at Broadwater in far northern New South Wales, Australia, 31 July 2017 (issued 04 August 2017. Australian media outlets report, 04 August 2017, that there is doubt Australia will meet emission cuts in the Paris agreement after a report from Australia's National Greenhouse Gas Inventory revealed a trend of increasing emissions in Australia. The level of emissions has reportedly increased since the government repealed a tax on carbon intensive companies in 2014.  EPA/DAVE HUNT  AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA - AAP
Tæp 70 prósent landsmanna hafa miklar áhyggjur af hlýnun jarðar. Mikill munur er á afstöðu fólks eftir stjórnmálaskoðunum. Stuðningsfólk Samfylkingarinnar hefur mestar áhyggjur en kjósendur Miðflokksins minnstar. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri könnun MMR.

35 prósent sögðust hafa mjög miklar áhyggjur og 33 prósent frekar miklar. Þá sögðust 21 prósent vera hlutlaus, fimm prósent hafa frekar litlar áhyggjur og sex prósent mjög litlar áhyggjur.

Konur hafa meiri áhyggjur af hlýnun jarðar en karlar. 76 prósent kvenna segjast hafa frekar miklar eða mjög miklar áhyggjur, en 60 prósent karla.

Yngstu og elstu svarendurnir hafa mestar áhyggjur af hlýnuninni. Þá segjast fleiri hafa litlar áhyggjur eftir því sem aldur er hærri. Sjö prósent þeirra yngstu (18-29 ára) sögðust hafa litlar áhyggjur og 16 prósent þeirra elstu (68 ára og eldri).

Talsverður breytileiki var á svörum eftir því hvaða stjórnmálaflokk svarendur styðja. 96 prósent kjósenda Samfylkingar hafa frekar eða mjög miklar áhyggjur af hlýnun. 89 prósent kjósenda Vinstri grænna og 78 prósent þeirra sem styðja Viðreisn og Pírata segjast hafa miklar áhyggjur. 60 prósent svarenda sem styðja Sjálfstæðisflokkinn hafa miklar áhyggjur af hlýnun, 53 prósent sem kjósa Flokk fólksins, 51 prósent kjósenda Framsóknar og 39 prósent svarenda sem styðja Miðflokkinn hafa áhyggjur af hlýnun jarðar.

Könnunin var gerð dagana 23. til 29. maí. Þátttakendur, 18 ára og eldri, voru valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR. 932 svöruðu könnuninni.

Nánar má lesa um könnunina á vef MMR