Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Landsliðskona greinir frá stanslausu áreiti

Mynd með færslu
 Mynd: UEFA - uefa.com

Landsliðskona greinir frá stanslausu áreiti

11.01.2018 - 16:25
Landsliðskona í knattspyrnu, sem upplýsir um nánast stanslausa áreitni af hálfu þjálfara síns hjá atvinnumannaliði í Noregi, segir að púlsinn hennar hafi farið upp þegar henni varð ljóst að umræddur þjálfari myndi starfa fyrir NRK á EM í knattspyrnu í Hollandi. Hún segist hafa fundið hvernig púlsinn fór upp þegar rödd þjálfarans fyrrverandi heyrðist á einni myndbandsklippu. Landsliðskonan svaraði helst ekki símtölum frá þjálfaranum nema hún gæti tekið þau upp.

Hópur íþróttakvenna sendi í dag frá sér yfirlýsingu þar sem kynbundnu ofbeldi er mótmælt. Þær segjast ekki lengur sætta sig við mismunun, ofbeldi eða áreitni. Breytinga sé þörf.

Með yfirlýsingunni birtust 62 sögur þar sem íþróttakonurnar segja frá því hvernig þær hafi verið áreittar kynferðislega, nauðgað af þjálfara sínum fyrir leik eða mismunað vegna kynferðis.

„Eitt sinn þurfti ég að flýja skemmtistað þar sem ég var á tónleikum þar sem að landsliðsþjálfari minn áreitti mig stöðugt kynferðislega, króaði mig af, greip um mig og þrýsti mér upp að sér á meðan hann sagði afar óviðeigandi hluti við mig,“ segir í einni sögunni. „Ég er 18 ára og er í handbolta. Í maí 2016 var mér nauðgað af handboltamanni. Þessi einstaklingur er og hefur verið í yngri landsliðum upp sinn feril,“ segir önnur sem kveðst hafa þurft að sitja fyrirlestur með þessum manni. „Ég sone-aði út og man lítið sem ekkert eftir þessum 4klst fyrirlestri sem ég sat á.“

Í annarri sögu upplýsir landsliðskona í knattspyrnu um stanslaust áreiti af hálfu þjálfara síns þegar hún var í atvinnumennsku í Noregi. Þjálfarinn kom meðal annars í veg fyrir að hún gæti tekið þátt í landsliðsverkefnum.

Í sögu sinni lýsir hún fundi sem hún átti með þjálfaranum en honum lauk með því að hann tók utan um hana og sagði: „Ég vil ekki halda of lengi utan um þig, þá verð ég graður.“

Samskiptin tóku á sig enn verri mynd þegar líða tók á tímabilið. Hún segir að þjálfarinn hafi lagt hana í einelti á æfingum, hringt mikið í hana og sent henni skilaboð. Þá hafi hún neyðst til að læsa íbúð sinni á kvöldin þar sem hann hafi þá verið farinn að taka upp á því að æða inn til hennar. Og svo hafi hann verið farinn að senda óviðeigandi myndir og myndbönd. 

Landsliðskonan fékk svo nóg af áreitinu og ákvað eftir landsliðsverkefni að æfa ekki með félaginu. Hún gaf þjálfaranum þá skýringu að hún væri veik en hann efaðist um þá skýringu í SMS-i þar sem hann væri staddur fyrir utan heimili hennar. Hún ákvað loks að segja stjórnarmanni alla sólarsöguna. „Síðustu tvær vikurnar fyrir þetta svaraði ég honum aldrei í símann nema þegar ég var fyrir framan tölvuna mína og tók allt upp.“

Stjórn knattspyrnufélagsins ákvað að lokum að láta þjálfarann fara þegar landsliðskonan mætti ekki í leik. „Og í þessari viku fékk ég myndir frá liðsfélögum mínum og öðru fólki þar sem hann var fyrir utan húsið mitt að reyna að leita að mér, fór meira að segja til liðsfélaganna mína og ath. hvort ég væri í húsinu þeirra. Ég kom ekki heim í eina og hálfa viku.“

Þrátt fyrir að þjálfarinn hefði verið rekinn fékk hann engu að síður stöðu hjá norska ríkisútvarpinu, NRK, við að lýsa leikjum. Landsliðskonan segist einu sinni hafa neitað að spila leik ef hann yrði að lýsa þeim leik og stjórn knattspyrnufélagsins kom í veg fyrir að af því yrði. 

Það var síðan á EM í Hollandi sem landsliðskonan opnaði sig í fyrsta sinn um þetta stanslausa áreiti sem hún hafði mátt þola. Þá kom í ljós að þessi þjálfari myndi lýsa leikjum á mótinu fyrir NRK og hún fann hvernig púlsinn fór hátt upp. „Ég vissi eftir fyrsta leikinn að hann hafði verið að lýsa leiknum okkar og var á staðnum.“ Hún segir það hafa verið nóg að heyra rödd hans á myndbandsklippu til að hún missti einbeitinguna. „Þá fattaði ég sjálf hvað þetta sat og situr enn þá mjög djúpt inn í mér.“

Hún kveðst hafa opnað sig við einn úr þjálfarateymi íslenska landsliðsins sem hafi gefið henni góð ráð og sagt að hún þyrfti að loka þessum kafla í lífinu og hvernig hún gæti gert það. „Ef ég hefði ekki lent í þessum aðstæðum á EM þá hefði ég örugglega ekki skrifað þetta hérna.“

Hún segist hafa gengið á vegg eftir að þjálfarinn var rekinn, spennuáfallið hafi verið slíkt. „Ég náði ekki að hugsa nógu vel um mig með mataræði og hætti nánast að borða. Viku eftir að hann var rekinn meiddist ég og var frá í 6 vikur. Ég veit að þau meiðsli komu út af andlegu álagi og streitu.“ Hún segist hafa lært það að maður eigi að segja strax frá þegar hlutirnir séu ekki í lagi „og standa með sjálfum sér.“