Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Landsbankamenn dæmdir í Hæstarétti

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sigurjón Árnason, fyrrverandi Landsbankastjóri, og þrír undirmenn hans voru dæmdir í hæstarétti í dag vegna allsherjarmarkaðsmisnotkunar. Sigurjón hlaut 18 mánaða fangelsisdóm sem kemur til viðbótar við þriggja og hálfs árs dóm sem Sigurjón hlaut í fyrri hluta málsins. Dómur Sigurjóns er því í heildina fimm ár.

Sigurjón, Ívar Guðjónsson, fyrrverandi yfirmaður deildar eigin viðskipta Landsbankans, og Júlíus Steinar Heiðarsson og Sindri Sveinsson, fyrrverandi starfsmenn deildarinnar, voru sakaðir um allsherjarmarkaðsmisnotkun, að hafa haldið uppi hlutabréfaverði í bankanum með gríðarmiklum kaupum á hlutabréfum bankans í tæpt ár fyrir hrun.

Allir nema Sindri voru dæmdir í héraðsdómi. Hæstiréttur snéri þeirri ákvörðun og hlauti Sindri níu mánaða dóm. Þá hlaut Ívar tveggja ára dóm og Júlíus eins árs dóm.

Sérstakur saksóknari ákærði í mars 2013 sex Landsbankamenn, dómari ákvað að skipta málsmeðferðinni í tvennt. Í október í fyrra dæmdi Hæstiréttur í fyrri hlutanum, sem oft er kenndur er við félagið Imon. Sigurjón hlaut þar þriggja og hálfs árs dóm, fyrir markaðsmisnotkun og umboðssvik við sölu á eigin hlutabréfum í bankanum utan kauphallar. Elín Sigfúsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs, fékk 18 mánaða dóm fyrir sinn þátt í viðskiptunum, og Steinþór Gunnarsson, fyrrverandi forstöðumaður verðbréfamiðlunar, var dæmdur í níu mánaða fangelsi.

 

asgeirjo's picture
Ásgeir Jónsson
Fréttastofa RÚV