Landlæknir flýr myglu í Heilsuverndarstöðinni

07.04.2019 - 18:40
Landlæknisembættið þarf að flýja úr gömlu Heilsuverndarstöðinni vegna myglu. Þar hefur embættið verið í átta ár. Þorsteinn Steingrímsson, eigandi hússins, segir að mygluna megi rekja til vanrækslu embættisins. 

Fram kom í fréttum í janúar að óháður matsmaður rannsakaði gömlu heilsuverndarstöðina við Barónsstíg vegna gruns um myglu. Haft var eftir Ölmu Möller landlækni að um þriðjungur starfsmanna embættisins hefði fundið fyrir einkennum vegna myglu, þar af væru sex sem gætu ekki unnið í húsinu og væru komnir með vinnuaðstöðu í heilbrigðisráðuneytinu.

Ágreiningur var um hvort mygla var í raun til staðar. Eigandi hússins sagði í samtali við fréttastofu í janúar að bæði hann og landlæknisembættið hefðu fengið fyrirtæki til að rannsaka húsið og niðurstöður stönguðust á. Þá hafi verið kallaður til óháður matsmaður. Hann skilaði nýlega skýrslu sinni. 

Nú um helgina auglýsir Landlæknir svo í Morgunblaðinu, eftir 1500 fermetra skrifstofuhúsnæði til leigu á höfuðborgarsvæðinu til 10 ára. Tilboðsfrestur er til 30. apríl.

Samkvæmt heimildum fréttastofu fer Landlæknisembættið úr húsinu vegna mikillar myglu. Í skriflegu svari til fréttastofu segir Þorsteinn Steingrímsson, eigandi hússins, að fár verkfræðinga í þessu máli eigi ekki við nein rök að styðjast. Hann segir að myglu og skemmdir í húsinu megi alfarið rekja til vanrækslu og sóðaskapar embættisins. Landlæknir vildi lítið tjá sig um málið við fréttastofu. Hún vísar því þó alfarið á bug að húsnæðið hafi spillst í meðferð Landlæknisembættisins - það sé ekkert í skýrslum sem styðji það. 

Heilsuverndarstöð Reykjavíkur var vígð 2. mars 1957 og er eitt þekktasta hús Einars Sveinssonar, fyrrverandi húsameistara Reykjavíkur. Stofnun hennar var sögulegur viðburður í heilbrigðismálum og var byggingin sérhönnuð fyrir starfsemi stöðvarinnar. Húsið er friðað í dag. 

Fréttin hefur verið uppfærð. Áður sagði að Einar Sveinsson hefði verið húsameistari ríkisins. Hið rétta er að hann var húsameistari Reykjavíkur. 

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi