Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Landhelgisgæslan bjargar alþingiskosningunum

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Þyrla Landhelgisgæslunnar hefur verið fengin til þess að fljúga atkvæðaseðlum vegna alþingiskosninganna á morgun til íbúa Grímseyjar. Ófært hefur verið í eyna undanfarna daga vegna veðurs og hvorki hægt að sigla né fljúga. Samkvæmt lögum er ekki hægt að birta úrslit kosninga fyrr en öllum kjördeildum hefur verið lokað og ef kjósendur fá ekki kjörgögn er kjördeild ekki starfhæf.

Samkvæmt Gesti Jónssyni, formanni yfirkjörstjórnar Norðausturkjördæmis, var reynt að komast út í Grímsey í morgun en menn þurftu frá að hverfa. Þyrla Landhelgisgæslunnar mun því fljúga með gögn út í eyna seinnipartinn í dag og verður varðskip Gæslunnar þeim til halds og trausts. 

Ef þeir 53 sem eru á kjörskrá í Grímsey hefðu ekki fengið að kjósa, hefði í versta falli þurft að fresta alþingiskosningunum, sem eru á morgun. En búist er við því að Landhelgisgæslan lendi með kjörseðla undir kvöld svo íbúar geta kosið í sinni heimabyggð.

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV