Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Landeigendur beðnir að hirða girðingarusl

07.08.2019 - 17:02
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Sveitastjórn Langanesbyggðar hvetur alla eigendur eyðijarða í sveitarfélaginu til að fjarlægja ónýtar girðingar af landareignum sínum. Bregðist þeir ekki við beiðninni er sveitarfélaginu skylt samkvæmt girðingarlögum að láta fjarlægja ónýtar girðingar á kostnað eigenda. Sams konar beiðnir hafa verið sendar landeigendum áður, árin 2015, 2017 og 2018.

Landeigendum er gefinn lokafrestur til og með 26. ágúst. Fyrir þann tíma skulu landeigendur hafa gert sveitarfélaginu grein fyrir áætlunum sínum, um hvenær og hvernig þeir hyggist standa að hreinsuninni. Fari svo að landeigendur sinni ekki kallinu og sveitarstjórn þurfi að sjá um hreinsunina getur sveitarfélagið samkvæmt fyrrnefndum lögum eignast lögveð í jörðinni fyrir áföllnum kostnaði. 

Þá geta landeigendur líka óskað eftir því að sveitarfélagið sjái um hreinsun gegn greiðslu en frestur til að óska eftir því er sá sami. Elías Pétursson, sveitarstjóri Langanesbyggðar, segir að þetta verði tekið föstum tökum en viðbrögð við síðustu þremur bréfum hafi verið misjöfn. Stórar fjölskyldur geti átt jarðirnar svo þetta geti reynst flókið en engu að síður sé það skylda landeigenda að huga að girðingum. Margar eyðijarðir séu í Langanesbyggð og ónýtar girðingar séu óprýði og geti skapað hættu fyrir dýr.