Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Lánastofnanir bjóða fyrirtækjum greiðslufresti

23.03.2020 - 19:36
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bankar, sparisjóðir og lífeyrissjóðir hafa komist að samkomulagi um að veita fyrirtækjum tímabundna greiðslufresti á lánum vegna efnahagserfiðaleika af völdum COVID-19. Samkvæmt því geta fyrirtæki frestað greiðslum í allt að sex mánuði að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Tilkynnt er um samkomulagið í fréttatilkynningu frá Samtökum fjármálafyrirtækja og Landssamtökum lífeyrissjóða í kvöld. Þar segir að samkomulaginu sé ætlað að styðja við fyrirtæki og starfsfólk meðan COVID-19 truflar atvinnustarfsemi. Samkomulagið gildir til júníloka en hægt er að framlengja það ef nauðsyn krefur.

Stóru viðskiptabankarnir þrír standa að samkomulaginu og auk þeirra Kvika, Lykill, sparisjóðirnir og lífeyrissjóðir.  

Í samkomulaginu felst að fyrirtæki geta sótt um að fresta greiðslum í allt að hálft ár hjá aðalviðskiptabanka sínum eða sparisjóði sem metur hvort fyrirtækið uppfylli viðmið. Ef svo er tilkynnir aðalviðskiptabanki eða sparisjóður öðrum lánveitendum sem eiga aðild að samkomulaginu um frestunina. Ef greiðslum afborgana og vaxta er frestað leggjast þær við höfuðstól og samningstíminn lengist um jafn langan tíma og frestunin segir til um. Skuldir án gjalddaga frestast til loka samningstímans.

Fyrirtæki sem selja vöru og þjónustu geta sótt um frest á greiðslum ef þau eru í heilbrigðum rekstri en verða fyrir tímabundnu tekjufalli af völdum heimsfaraldursins sem leiðir til rekstrarvanda. Þau mega ekki hafa verið í vanskilum í 60 daga eða lengur í lok febúar. Einnig er gert ráð fyrir að þau hafi nýtt sér viðeigandi úrræði stjórnvalda vegna COVID-19.