Nexus Noobs er hugarsmíð Soffíu Elínar Sigurðardóttur sálfræðings sem vildi búa til vettvang fyrir ungt fólk, á aldrinum tólf til tvítugs, sem hefur áhuga á vísindaskáldskap, spilum og öðru því tengdu. Þátttakendur koma saman og fá að kynnast borðspilum, safnkortaspilum, hlutverkaspilum, módelsmíði og herkænskuleikjum og einnig fræðast um vísindaskáldskap, fantasíur, myndasögur og ýmislegt fleira. „Þetta er verkefni sem ég bjó til fyrir þremur árum í samstarfi við Gísla, eiganda Nexus, um að ná inn yngri krökkunum sem hafa áhuga á jaðaráhugamálunum, nörda-áhugamálum,“ sagði Soffía Elín í viðtali við Lestina á Rás 1 og bætti við að mikil þörf hafi verið fyrir slíkan vettvang hér á landi.