Lærði mikið af því að missa fótinn

Mynd: Óskar Þór Nikulásson / Marí / RÚV

Lærði mikið af því að missa fótinn

16.02.2020 - 20:00
Skíðakappinn Hilmar Snær Örvarsson hefur farið á kostum í vetur. Hann er í forystu í Evrópumótaröð fatlaðra í alpagreinum fyrir síðustu mót vetrarins og ætlar sér sigur í mótaröðinni. Hilmar er einfættur, en það virðist ekki há honum meira en svo að hann er líka öflugur í golfi. Við hittum Hilmar Snæ í vikunni.

Hilmar Snær sem hefur farið á kostum í Evrópumótaröð fatlaðra í alpagreinum í vetur hefur alltaf verið mikill íþróttamaður og byrjaði ungur að æfa fótbolta og handbolta. Átta ára missti Hilmar hins vegar annan fótinn.

„Ég fékk krabbamein í byrjun árs 2009 eða í lok 2008 og fór þá í tíu mánaða ferli þar sem þurfti að taka af mér fótinn. Það var þó hægt að nota neðri hluta fótarins til að fúnkera eins og hné. Þannig að ökklinn á mér er bara eins og hné sem er mjög sniðugt sko,“ sagði Hilmar Snær er innslag um hann var sýnt í Íþróttum á sunnudegi í kvöld og má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.

Betra að takast á við svona lagað ungur

En hvernig var það að upplifa það svona ungur að missa annan fótinn? „Það var álag og reynsla. Ég lærði mikið af því. En svo að fara í svona miklar breytingar er örugglega betra þegar maður er svona ungur. Því fyrir fullorðinn einstakling tekur svo miklu lengri tíma að aðlagast því. Þarna var ég kannski hálft ár að aðlagast því að nota ökkla sem hné, sem virkar kannski svolítið skrítið fyrst fyrir heilann. En núna fyrir mig þá veit ég bara ekki annað og þetta fúnkerar bara eins og venjulegt hné fyrir mér.“

„Ég skíða á einum fæti og er með svona stafi sem að geta hjálpað mér ef þetta er eitthvað tæpt. En að mestu leyti skíða ég bara á einu skíði,“ segir Hilmar sem segist ekkert hafa verið það lengi að ná tökum á tækninni. „Það var kannski aðallega í byrjun með styrkleikann, þegar ég var lítill. En svo styrkist leggurinn á manni og þá bara kemur þetta mjög fljótt. Þetta er í raun bara eins tækni og að skíða á tveimur skíðum.“

Stefnir á sigur í Evrópubikarnum

Hilmar Snær sem verður tvítugur síðar á árinu vann heimsbikarmót í svigi í janúar í fyrra. Í vetur hefur hann svo farið á kostum í Evrópubikarnum og vann meðal annars þrenn gullverðlaun á jafn mörgum dögum í mótaröðinni í lok janúar.

„Það hefur bara gengið mjög vel og við höfum einblínt á Evrópubikarinn en ekki heimsbikarinn. Markmiðið á þessu ári er að vinna samanlagða stigatitilinn,“ segir Hilmar Snær en hans eftirlætisgrein er svig. 

Hilmar keppti á Ólympíumóti fatlaðra í PyeongChang fyrir tveimur árum sem hann segir hafa verið mikla lífsreynslu. „Það var rosa gaman og rosa mikið í kringum þetta. En svo lít ég nú bara á þetta í augnablikinu eins og venjulegt mót svo maður sé ekki að auka á eitthvað stress,“ segir Hilmar um upplifunina á Ólympíumótinu 2018.

Var meðal efstu í byrjun Íslandsmótsins í golfi

En Hilmar lætur sér ekki nægja að vera góður á skíðum. Hann er nefnilega líka góður kylfingur. Með 2,4 í forgjöf og var efstur eftir fyrstu átta holurnar á Íslandsmótinu í golfi síðasta sumar.

„Það var svolítið skemmtilegt. Það var mikil upplifun að vera þarna meðal þeirra efstu. En krefjandi lokaholur og svo var fóturinn ekki í standi þá - þannig að lokaholurnar voru svolítið erfiðar fyrir mig bæði hvað hugarfar varðar og svo voru þetta líka bara erfiðar holur.“

Til að halda sér í standi og hafa líkamlega þáttinn í lagi er Hilmar svo kominn á fullt í crossfit í ofan á allt annað. Hann ver talsverðum tíma í að æfa crossfit þó hann keppi ekki í því.

„Mikilvægt að geta hreyft sig“

„Það er gott að hafa það til styrktar og svo er mikilvægt að hlakka til að fara á styrktaræfingu,“ segir Hilmar sem er í mikilli íþróttafjölskyldu. Foreldrar hans eru á fullu á gönguskíðum, systir hans er Helena Rut Örvarsdóttir atvinnukona í handbolta í Danmörku og leikmaður íslenska landsliðsins og yngri bróðir hans æfir fótbolta af miklum móð.

„Það er bara svo mikilvægt að geta hreyft sig. Sama í hvaða formi það er,“ segir afreksmaðurinn Hilmar Snær Örvarsson.