Læra að vera án lyfja við þrálátum verkjum

15.01.2020 - 11:00
Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Fjölmörg dæmi eru um að fólk með langvinna þrátláta verki hafi dregið úr notkun verkjalyfja og jafnvel hætt að nota þau eftir að hafa farið í endurhæfingameðferð á Reykjalundi. Þetta sýna niðurstöður úr rannsókn sem Magnús Ólason endurhæfingalæknir og félagar hafa gert.

Sterk lyf ekki góð við þrálátum verkjum

Magnús Ólason fyrrverandi læknir á Reykjalundi skrifar ásamt félögum sínum grein í nýjasta Læknablaðið.  Magnús er fyrrum framkvæmdastjóri lækninga á Reykjalundi og hefur starfað þar við endurhæfingu og verkjameðferð í hátt í fjóra áratugi. 

Talið er að á milli 40  og 50 % íslendinga sé með þráláta verki og flestir eru með verk í bakinu.  

Magnús segir að ef einhver er með verk í 6 - 8 vikur eða lengur sé talað um að verkurinn sé þrálátur og þá þarf að nálgast hann með allt öðrum hætti. 

„Þá þýðir ekki lengur að slá bara á sársaukann með sterkum lyfjum eins og gert er í byrjun þá þarf að nálgast þetta á allt annan hátt og þá nær því sem við erum vön að gera í þverfaglegri verkjaendurhæfingu.“

Þeir sem bjóði fólki upp á verkjameðferð líti oft á krónísku þrálátu verkina eins og þeir séu nýir af nálinni og nálgast þá með þeim hætti, „hvort heldur sem með lyfjum eða öðrum aðferðum og þá er ekki von á árangri, því miður“

Óraunhæft að reyna að losa fólk við verkina alveg

Magnús segir að þegar fólk sé búið að vera með verki svo mánuðum skipti, jafnvel árum þá sé ekki raunhæft að losa fólk við verkinn.

Hefðbundin þverfagleg verkjaendurhæfing stendur í einhverjar vikur. Meira en helmingur þeirra sem koma í verkjameðferð á Reykjalundi eru búnir að vera með verki í fimm ár eða lengur. 

„Og það er ekki raunhæft markmið að losa fólk við slíka verki heldur þarf að horfa á afleiðingar verkjanna og þær afleiður sérstaklega á hugsunina sem að verkirnir valda og reyna að leiðrétta alskonar bjagaðar hugsanir sem fólk hefur óvart ratað inn í vegna verkjanna.“

Verkir séu varnaðarmerki líkamans sem er að segja fólk að eitthvað sé að. Fólk túlki því þráláta verki eins og eitthvað sé að. 

„Og svo til að bæta gráu ofan á svart ef þú ætlar síðan að fara að gera eitthvað af viti eins og t.d. hreyfa þig meira að til að bygga upp þrek og byggja up varnarvirki líkamans gegn verkjum þá verður þú ívið verri til að byrja með og þá bara lítur þú á að þetta sé ekki gott fyrir þig. [.. ]  Það þarf í rauninni að kenna fólki hvernig á að umgangast sína verki þó svo þeir séu vondir“

Kvíði og þunglyndi fylgifiskar þrálátra verkja

Magnús segir að byrja þurfi að ræða um hvaða áhrif verkirnir hafa á sálina.

„Því þú færð kvíða og það er auðvitað eðlilegt manneskjunni að verða kvíðinn því hún leitar stöðugt lausn á þessum vanda og fær hana ekki. Og þá er það  bara manneskjulegt og eðlilegt að verða kvíðinn og svo verður þú dapur og þú verður þunglyndur og svo hættir þú að sofa og það er ennþá olía á eldninn. Þetta er eitt og síðan ferð þú að forðast að gera hluti sem þú gerðir áður. Þú hættir að vinna til að mynda því þú sjálfur og jafnvel aðrir hafa talið þér trú um að það sé ekki gott fyrir verkinn að reyna á sig og vinna en því er þveröfugt farið.“

Vinnufærni tvöfaldaðist eftir þverfaglega verkjameðferð

Magnús og starfsfólk verkjateymis á Reykjalundi hafa rannsakað árangur verkjameðferðarinnar sem þar er stunduð. Rannsóknin byrjaði áramótin 2003 og 2004. Valið var af handahófi úr hópi sjúklinga sem var vísað í verkjateymi Reykjalundar. Rannsóknin stóð til 2008 og síðan var fólkinu fylgt eftir í þrjú ár.  

Hluti þeirra sem völdust inn í rannsóknina var fylgt eftir á fyrstu hrunárunum. „Ég nefni það nú sérstaklega vegna þess að árangurinn var ótrúlega góður og sérstaklega hvað varðar vinnufærni þá nánast tvöfaldaðist vinnufærni þessara einstaklinga frá því meðferðin byrjaði og þar til þriggja ára eftirflylgninni lauk og þrátt fyrir það að all stór partur sjúklinganna var í þessari eftirfylgd á upphafsárum hrunsins þar sem atvinnuöryggi var miklu minna heldur en venjulega·“

Losna við óþarfa verkjalyf

Boðið hefur verið upp á þverfaglega verkjameðferð á Reykjalundi í fjölmörg ár. Í henni eru tveir megin þættir.  

„Annars vegar þá losum við fólk við óþarfa lyf og þá er ég kannski fyrst og fremst að tala um þessi sterku verkjalyf eða ópíóðana sem hafa verið að tröllríða flestum samfélögum í vestrænum heimi undanfarin árum. Við losum fólk ekki endilega við öll lyf stundum geta gigtarlyf til að mynda hjálpað eitthvað. o.s.frv. Síðan er hinn þátturinn hugræn atferlismeðferð og hún hefur verið stunduð við verkjum á Reykjalundi síðalstliðin rúmlega 20 ár.“

Hugræn atferlismeðferð við verkjum  

 

Eftir að rannsókninni lauk hefur verkjateymið á Reykjalundi verið að þróa nýjustu útgafuna af hugrænni atferlismeðferð við verkjum á heimsvísu. Hún er kölluð ACT sem stendur fyrir acceptance and comitment therapy

Magnús segir að hugræna atferlismeðferðin snúist um að færa sjúklingnum verkfæri sem hann getur nýtt sjálfur til að vinna á bjöguðum og neikvæðum hugsunum sem hafa valdið honum  trafala til þess að ná betri árangri og meiri færni. Hugræn atferlismeðferð varð til á 10 áratugnum  

„Þar var mottóið menn raskast ekki af hlutum heldur viðhorfi sínu til hlutanna og það er til að mynda ef þú ert með verk í bakinu þá er það þitt eigið viðhorf til þess hvað þessi verkur þýðir fyrir þig sjálfan það sem skiptir máli. Og ef þetta viðhorf þitt til þessara verkja er eitthvað neikvætt eitthvað bjagað þá þarftu að vinna með þá  hugsun. Út á það gengur hugræna meðferðin “

„Actið hins vegar sem er nútíma hugræn meðferð við verkjum þar er mottóið æðruleysisbænin“.

„Guð gef mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt og visku til að greina þar á milli.“

Vertu gagnrýninn á árangur af verkjalyfjum

Hvaðað ráðleggingar myndir þú gefa þeim sem hafa verið með þráláta verki lengi?

„Að ráðfæra sig við heilbrigðisstarfsfólk sem á að hafa þekkingu á þessum hlutum. Það sem mestu skiptir er að gera það sem þú getur gert sjálfur.  Þú þarft að sofa, hvílast vel. Þú þarft að hreyfa þig, ná góðu þreki og þoli. Og svo náttúrlega er fullt af lyfjum sem er verið að gefa fólki sem gera raunverulega mjög lítið gagn. Þú þarf að vera gagnrýnin á árangurinn af þeim lyfjum sem þú ert að taka. […]  Það er auðvitað þannig að það eru allir að reyna að gera sitt besta en það er bara því miður þannig að ef einhver meðferð skilar ekki árangri á einhverjum vikum þá er hún bara ekki nógu góð.“

Magnús segir að í greininni sem hann og félagar hans skrifuðu í Læknablaðinu sé bent á að með því að draga úr notkun fólks með þráláta verki á heilbrigðisþjónustu, með því að draga úr verkjalyfjanotkun þeirra og lyfjanotkun almennt og með því að gera það vinnufærarar  sé verið að spara þjóðfélaginu mikið. „Og hver króna sem er sett í endurhæfingameðferð þessara einstaklinga skilar sér áttfalt til baka.“
 
 

 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV
Mannlegi þátturinn
Þessi þáttur er í hlaðvarpi