Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Læra að veiða og gjörnýta gæsir á Hallormsstað

15.09.2019 - 20:43
Mynd: Rúnar Snær Reynisson / RÚV
Gæsaveiði stendur nú sem hæst og bæði kvölds og morgna sitja veiðimenn fyrir gæs gráir fyrir járnum. Nemendur í nýju sjálfbærninámi í Hallormsstaðarskóla fá að fara á veiðar og læra að gjörnýta hráefnin og góða umgengni við matarkistu náttúrunnar.

Námi í Hallormsstaðarskóla hefur verið gjörbreytt er þar læra nemendur nú allt um sjálfbærni; að nýta það sem landið gefur. Við hittum á nemendur á leið á gæsaveiðar. „Núna förum við hérna upp á heiði, finnum góðan poll, reynir að finna ummerki eftir gæs sem þýðir að gæsin er að mæta á svæðið og svo bara að vona það besta. Að hún komi eitthvað í kvöld,“ segir Ýmir Eiríksson kennari og sviðsstjóri matreiðslusviðs í Hallormsstaðarskóla. 

Nýtt að nota byssur í náminu

„Fariði varlega og góða skemmtun. Þetta er svolítið nýtt að hafa svona byssur í skólanum þannig að þið farið að öllu með gát,“ segir Bryndí Fiona Ford skólameistari áður en þau leggja í hann. „Við erum að reyna að brýna fyrir nemendum ábyrga neyslu, við erum að fara með nemendurna út í náttúruna mikið, kynna hráefnið fyrir þeim og hringrás hráefna og svo siðfræði náttúrnytjanna. Þannig að við ætlum að kynna okkur hvernig gæsaveiðar fara fram. Hvaða nýtingarmöguleika við höfum með gæsina, hvað er hægt að gera við alla hluta gæsarinnar,“ segir hún. Síðar í vetur kemur landsliðið í kjötiðn og kennir nemendum að hantera gæsir og fleira kjötmeti. 

Spennandi að þurfa ekki út í búð

Við höldum upp á Fljótsdalsheiði og í Bessastaðafjalli mætum við smölum með fjárhóp á leið í réttir. En við viljum fljúgandi kjöt ókeypis. „Það er mjög spennandi að geta veitt sér í matinn sjálfur eða þannig, það er mjög spennandi að þurfa ekki að fara út í búð heldur geta útvegað sér sitt eigið. Síðan er þetta líka mjög góð hreyfing og útivera,“ segir Marta Guðlaug Svavarsdóttir, nemandi í sjálfbærnináminu á Hallormsstað. 

Tálfuglar, gæsaver og gæsaflauta

Þegar við komum að tjörninni sjáum við strax ummerki og leggjum út tálfugla. Marki um að hér sé óhætt að setjast. Og ef vart verður gæsahópa er leikið á gæsaflautuna.  Líka er lært um gamlar aðferðir; að smala þeim ófleygum í gæsaver og rota með kylfu. En nú er slíkt bannað og við notum stálhögl sem menga minna en blý. „Ég er að vona að við fáum kvöldflugið hérna yfir okkur úr suðvestri. Við verðum hérna og ef þær sjá tálfuglana og heyra í mér þá demba þær sér niður og yfir okkur og ætla að setjast og þá náum við þeim vonandi,“ segir Ýmir. 

Sumir nýta aðeins bringur og læri en henda rest

Þá er bara að bíða. Það reynir á þolinmæðina og möguleikinn á að fá ekkert nagar veiðimennina sem stara upp í tóman himinn. En svo, rétt fyrir myrkur, flykkjast gæsirnar um loftin í leit að náttstað og tvær falla í valinn. „Þá förum við bara með þetta niður í skóla og hengjum upp helst úti í 2-3 daga það fer eftir hitastigi. Það sem veiðimenn gera oft er að taka bara bringur og læri og svo fer restin bara í ruslið en við sem sagt nýtum allan fuglinn þannig að við erum að nota innmatinn í kæfu eða súpu og notum beinin í soð,“ segir Ýmir. 
„Sjálfbærnin kennir manni helling en fyrst og fremst er það nýting, get ég sagt. Það verður gaman að nýta bráðina sem við fengum í kvöld alveg til fulls,“ segir Jóel Geir Jónasson, nemi í sjálfbærnináminu. 

Ýmir segist á þeirri skoðun að þeir sem vilji borða kjöt þurfi að vera tilbúnir að sækja það sjálfir. „Maður þarf náttúrlega ekki kjöt á hverjum degi eða í öll mál þannig að að eiga nokkrar gæsir í frysti er bara gott mál fyrir veturinn.“

Horfa á fréttatíma