Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Læra að rækta grænmeti í skólum fyrir vestan

16.03.2020 - 13:15
Mynd: Jóhannes Jónsson / RÚV
Fræ til framtíðar kenna vestfirskum börnum að rækta grænmeti til matar í þar til gerðu ræktunarkerfi sem fylgir þeim alla skólagönguna.

„Við viljum kenna krökkum að rækta. Rækta sér til matar. Að þau sjái hvaðan matur kemur, hvað þarf til. Að þetta sé kunnuglegt. Að þau geti gripið sér grænmeti hvenær sem er. Okkur langar til þess að þetta sé hluti af daglegu lífi: grænmeti og að rækta,“ segir Arnhildur Lilý Karlsdóttir, kennari hjá Fræ til framtíðar.

Börnin byrjuðu að læra að rækta í byrjun árs og má nú finna nemendur með græna fingur í fimm skólum á Vestfjörðum. Allt, frá baunum og salati til kryddjurta, er ræktað í vatnsræktunarkerfi sem er inni í kennslustofunni.

Gunnar Ólafsson, sem er einnig kennari hjá Fræ til framtíðar, segir að kennslan sé margþætt og að börnin læra ekki einungis að sá og vökva.

„Við byrjum á því að fara með barninu í hvað fræ sé. Bæði efnislega og svo líka bara hugtakið fræ, að fræ getur verið svo margt meira en bara þessi litli harði hlutur. Það getur einnig verið hugmynd eins og verkefnið var. Svo þróast kennsluefnið með aldrei barnsins og við sjáum fyrir okkur að þau taki kerfin með sér upp námsstigin og útskrifist með mjög flókin kerfi sem við verðum þá löngu hætt að skilja. Þau verði löngu farin að kenna okkur á þeim tímapunkti,“ segir hann.

Börnin segjast vissulega hafa lært margt nýtt um matarrækt og hafa mörg hver tekið kunnáttuna með sér heim. Þau fengu baunir með sér til að rækta úr og þekkja til þess hve mikið vatn þarf til að vökva grænmetið.

Frá kennslu Fræ til framtíðar í grunnskólanum á Þingeyri. Grunnskólakrakkar læra að rækta grænmeti