Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Læknir með kórónuveiruna: „Þetta er algjör skítapest“

27.03.2020 - 11:40
Mynd með færslu
 Mynd: Læknablaðið
„Ég veit alveg að Ísland á frábært heilbrigðisstarfsfólk en það kom mér á óvart hversu faglega er að þessu staðið,“ segir Magnús Ólason, læknir og fyrrverandi framkvæmdastjóri lækninga á Reykjalundi. Hann er einn þeirra 802 Íslendinga sem hafa greinst með kórónuveiruna og segir hana vera „algjöra skítapest.“

Magnús og kona hans voru að koma frá Bandaríkjunum þegar þau fóru í sóttkví eftir að ferðafélagi þeirra greindist með COVID-19.

Hann fór sjálfur að finna fyrir fyrstu einkennum tveimur dögum seinna en segir veiruna ekki hafa lagst þungt á sig. Þetta hafi aðallega verið hiti og beinverkir og almennur slappleiki. „Ég var farinn að halda að ég væri orðinn frískur á sunnudag en þá kom hitinn aftur.“ 

Magnús lýsir því í færslu á Facebook hversu vel hafi verið haldið utan um hann og segir COVID-teymi Landspítalans og heilsugæslunnar hafa sýnt einstæða fagmennsku. „Hvað er tryggara en að fá upphringingu til að byrja með daglega frá hjúkrunarfræðingi eða öðru heilbrigðisstarfsfólki sem fer yfir stöðuna og gefur hughreystandi og fagleg ráð,“ skrifar Magnús á Facebook. „Um leið og maður varð eitthvað veikari þá var farið að fylgjast betur með manni og það var þægileg upplifun,“ segir hann í samtali við fréttastofu.

Kona Magnúsar sýktist líka af kórónuveirunni og fékk 39 stiga þrjá daga í röð. „Og hún fékk beint samband við sérfræðing.“

Magnús segir þessa sýkingu ekki líka neinni pest þótt hann hafi sjálfur ekki fengið flensu í mörg herrans ár enda farið reglulega í flensusprautu. „Þetta er algjör skítapest og allt öðruvísi. Maður er alveg þreklaus og drulluslappur,“ lýsir Magnús en þau misstu ekki bragðskynið eins og margir sem hafa greinst með veiruna.

Hann segist vera á öðrum góðum degi en það séu komnir fimmtán dagar síðan hann veiktist. „Í venjulegri flensu liggur þú einhverja tvo til þrjá daga og ert búinn með þetta á viku.“

Magnús segist vera nokkuð viss að Ísland eigi eftir að standa uppi sem eitt af þessum löndum sem hafi staðið sig hvað best í þessum faraldri. Og gefur lítið fyrir skrif sjálfskipaðra sérfræðinga á netinu. Menn séu að bera Ísland saman við lönd sem hafi brugðist seint og illa við - hér á landi hafi þetta verið tekið föstum tökum.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV