Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Læknar stefna ríkinu

07.10.2017 - 19:30
Átta læknar ætla að stefna ríkinu vegna synjunar á samningi um greiðsluþátttöku við Sjúkratryggingar Íslands. Ellefu læknum í ýmsum sérgreinum hefur verið synjað um samning á þessu ári og í fyrra. Hjá velferðarráðuneyti er unnið að því að greina vandann og leita lausna.

Samkvæmt samstarfssamningi Sjúkratrygginga Íslands og Læknafélags Reykjavíkur skal samstarfsnefnd meta þörf á að sérfræðilæknar fái samning sem felur í sér að ríkið greiði niður þá þjónustu sem þeir veita. Heilbrigðisráðuneyti ákvað síðasta vor þá tímabundnu ráðstöfun að ekki fengju fleiri læknar samning.

Kristján Guðmundsson, háls-, nef- og eyrnalæknir og formaður samninganefndar Læknafélags Reykjavíkur, telur þetta skýlaust brot þar sem þörf á læknum sé ekki metin. „Eftir að hafa legið yfir þessu þá höfum við lagt til við þessa lækna sem málið varðar að þeir höfði mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur til viðurkenningar á því að samningurinn hafi verið brotinn,“ segir hann.

Óttast áhrif á nýliðun

Kristján segir ljóst að staðan sem upp er komin muni minnka nýliðun í hópi sérfræðilækna verulega, bæði til skemmri og lengri tíma. Ungir sérfræðilæknar flytji síður hingað til lands. Þannig geti nokkrir árgangar ungra sérfræðinga ákveðið að flytja ekki til landsins ef þetta ástand vari lengur en í nokkra mánuði.

44 prósent sérfræðilækna hér á landi eru 60 ára eða eldri og því á leið á eftirlaun á næstu árum. Þá segir Kristján að ekki hafi tekist að vinna upp þann drátt sem varð á nýliðun eftir efnahagshrunið nema í nokkrum sérgreinum. 11 prósent sérfræðilækna eru orðnir 70 ára og því komnir á eftirlaunaaldur.

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Kristján Guðmunsson, læknir og formaður samninganefndar Læknafélags Reykjavíkur.

Fjórir hjartalæknar af stofum á árinu

Fjórir eldri hjartalæknar á stofum hverfa frá störfum á þessu ári. Inga Jóna Ingimarsdóttir er eini hjartalæknirinn sem hefur sótt um samning en fékk synjun, og því útlit fyrir að hjartalæknum á stofum fækki að óbreyttu um fjóra.
„Ég, ásamt alla vega sjö öðrum kollegum, sem tilheyra öðrum sérgreinum, höfum ákveðið að fara í mál út af þessu. Við einfaldlega sitjum ekki við sama borð og aðrir kollegar okkar. Við munum sækja þetta af fullri hörku,“ segir Inga Jóna.

Hún er nýflutt til landsins eftir nám og störf í Svíþjóð. Hún uppfyllir öll skilyrði til að opna stofu og ætlar að gera það á næstu vikum, þrátt fyrir að Sjúkratryggingar taki ekki þátt í kostnaði sjúklinga. Hún segir synjun Sjúkratrygginga á samningi óneitanlega snerta sig mikið. „Ég vinn á hjartadeild Landspítalans sem hjartalæknir í 80 prósent starfi. Það er gert ráð fyrir því að ég sé með einn stofudag í viku. Ég ætlaði að byrja með stofu í október og hef aðeins verið að velta því fyrir mer hvað ég ætti að gera. Það er gríðarleg þörf á hjartalæknum.“

Inga Jóna bendir á að þjóðin sé að eldast og því fái fleiri hjartasjúkdóma. „Samfara framförum í læknisfræði og þá sérstaklega í hjartalækningum þá lifa fleiri með hjartasjúkdóma, fleiri lifa af eftir hjartaáföll og með hjartabilun sem er krónískur sjúkdómur. Það kallar eftir okkar vinnu og þeirri sérþekkingu sem ég færi til landsins.“

Skorður settar í janúar 2016

Á þessu ári og því síðasta hefur 11 læknum verið synjað um samning en 35 umsóknir verið samþykktar. Sjúkratryggingar óskuðu eftir því við velferðarráðuneyti í ágúst síðastliðnum að fá að afgreiða umsóknir átta sérlækna. Í svari ráðuneytisins segir að vegna alvarlegrar fjárhagsstöðu á fjárlagaliðum Sjúkratrygginga Íslands verði ekki teknir nýir sérgreinalæknar inn í rammasamninginn. Settar voru skorður við fjölgun sérgreinalækna sem heimilað væri að starfa á grundvelli samnings við Sjúkratryggingar í janúar 2016. Í svari ráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu segir að kostnaður ríkisins vegna rammasamnings við sérgreinalækna, sem gerður var árið 2013, hafi farið umtalsvert fram úr áætlunum ár hvert frá því hann tók gildi. Í samningnum eru viðmið um einingafjölda, en samkvæmt rammasamningnum reiknast greiðslur til lækna út frá fjölda eininga en læknisverk eru metin til eininga eftir umfangi. Tölur frá Sjúkratryggingum Íslands sýni að annars vegar hafi komur til sérfræðinga aukist umfram lýðfræðilega þætti, svo sem fólksfjölgun og breytta aldurssamsetningu og einingafjöldinn hafi aukist enn meira, eða umtalsvert meira en komufjöldi.

„Velferðarráðuneytið hefur lagt áherslu á að koma böndum á þessa þróun í samræmi við skyldur líkt og kveðið er á um í 27. gr. laga um opinber fjármál,“ segir í svari ráðuneytisins. Þær skorður sem settar voru í janúar 2016 við fjölgun sérgreinalækna inni á rammasamningnum hafi ekki dugað til að mæta vandanum og því var ákveðið síðasta vor að loka tímabundið fyrir aðgengi að honum. Unnið er að því að greina vandann og skoða til hvaða úrræða er hægt að grípa.

Þessi tímabundna aðgerð felur í sér að nýir sérgreinalæknar geta ekki starfað sjálfstætt á stofu með greiðsluþátttöku sjúkratrygginga en þeir eigi kost á að sækja um stöður í sínum sérgreinum eftir því sem þeirra er þörf á sjúkrahúsum eða öðrum heilbrigðisstofnunum, að því er fram kemur í svari ráðuneytisins. Það telur ekki að takmörkun, né tímabundin stöðvun á gerð samninga við sérgreinalækna, sé brot á rammasamningi.