Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kýrnar héldu mjaltaþjóninum gangandi á næturbröltinu

10.01.2020 - 10:55
Mynd: Ljósmynd - Hvanneyrarbúið á  / Ljósmynd - Hvanneyrarbúið á
Það vakti mikla athygli í gær þegar fréttastofa sagði frá því að kýrnar á Hvanneyrarbúinu hafi farið snemma út þetta árið eftir að hafa sjálfar opnað sér leið út úr fjósinu um miðja nótt. Hafþór Finnbogason ræddi atvikið í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun, úr fjósinu á Hvanneyrarbúinu.

Þegar hann mætti í fjósið um morguninn voru mikil ummerki um umferð nautgripa, en engir gripir sjáanlegir úti og allt eins og það átti að vera inni í fjósinu. Það eina sem var óvenjulegt var að hurðin þar sem kýrnar fara út á sumrin var galopin og fennt hafði inn.

„Þær hafa með ótrúlegum hætti náð að opna hurðina. Hún er nú læst alla jöfnu en þær hafa einhvern veginn náð að opna læsinguna, lyfta hurðinni upp og hlaupa út í myrkrið. Þegar birti til þá sást að þær höfðu farið ótrúlega vítt og breitt fyrir utan fjósið,“ sagði Hafþór.

Það er ekki síður magnað að kýrnar hafi skilað sér allar sem ein aftur í básana áður en nokkur varð þeirra var á næturbröltinu.

„Mjaltaþjóninn hringir í okkur ef hann er aðgerðarlaus í klukkustund. Þær hafa passað vel upp á það alla nóttina að mæta jafnt og þétt, aldrei hringdi hann í okkur og við vissum ekki neitt. Þær sýndu bara mikla skynsemi að fara inn í öryggið þegar veðrið fór að versna. Og magnað að þær hafi allar komist heim aftur.“

Hafþór segir mestu hættuna vera að þær slasi sig illa á svelli. Hann hafi sett hengilás á hurðina strax um morguninn til þess að koma í veg fyrir frekara næturbrölt úr fjósinu.

„Þetta er bara fyndið og skemmtilegt, fyrst þetta fór allt eins vel og það mögulega gat. Engin kýr slasaðist og þetta hafði engin áhrif á mjólkurframleiðsluna. Þær höfðu bara gott og gaman af þessu,“ sagði Hafþór Finnbogason á Hvanneyrarbúinu.