Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kýr á næturbrölti eftir að hafa brotist út úr fjósinu

09.01.2020 - 10:41
Mynd með færslu
 Mynd: Ljósmynd - Hvanneyrarbúið á
Kýrnar á Hvanneyrarbúinu fóru snemma út þetta árið eftir að hafa sjálfar opnað sér leið út úr fjósinu um miðja nótt. Staðarhaldarar á Hvanneyri greina frá þessu á Facebook og segja magnað að kýrnar hafi skilað sér fyrir morgunmjaltir.

„Við anddyrið voru mikil ummerki eftir umferð nautgripa en engir gripir sjáanlegir úti. Inni í fjósi var allt rólegt, kýrnar lágu ýmist á básum eða átu hey í mestu makindum. Allt eins og það á að vera fyrir utan eitt, hurðin þar sem kýrnar fara út á sumrin var galopin og fennt hafði inn,“ segir í færslu Hvanneyrarbúsins.

Kýrnar hafi með einhverjum ótrúlegum hætti aflæst hurðinni, lyfta henni upp og hlaupið svo út í nóttina. Mikil ummerki voru um umgang kringum fjósið og troðna slóð mátti sjá með fram veginum. 

„En það magnaða við þetta ævintýri hjá kúnum er að hver einasta kýr hafði skilað sér inn aftur fyrir morguninn. Veðrið hefur spilað þar stóran þátt en þegar leið á nóttina fór veður versnandi og kýrnar hafa sýnt einstaka skynsemi og drifið sig inn aftur í hlýjuna.“

Staðarhaldarar geta skoðað í tölvu hvort einhver kýrin hefur verið óvenjulega virk, í gegnum svokallaða beiðsligreina. Þennan morguninn voru yfir 50 kýr með tilkynningu um óvenjulega virkni og þar mátti sjá að þær höfðu opnað um miðnætti og verið úti fram til fimm eða sex um morguninn.

„Þetta hefur verið heilmikið ævintýri hjá þeim en sem betur fer rötuðu þær allar inn og enginn slasaðist við þennan hamagang,“ skrifa staðarhaldarar og eru augljóslega hissa en vel skemmt yfir uppátækinu.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV