Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Kynna undirbúning fyrir fjórðu iðnbyltinguna á nýju ári

Mynd: RÚV / RÚV
Ríkisstjórn Íslands mun kynna aðgerðir á nýju ári til þess að íslensk samfélag verði betur í stakk búið til að takast á við fjórðu iðnbyltinguna. Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í áramótaávarpi sínu í Sjónvarpinu í kvöld.

Katrín ræddi tæknibreytingar og þær áskoranir sem ný tækni býr til fyrir íslenskt samfélag. Hún gerði samfélagsmiðla að umtalsefni og nefndi kvíða og depurð sem ungt fólk þjáist af í auknum mæli samkvæmt rannsóknum.

„Ekkert af mínu framhaldsskólalífi rataði á internetið, engar myndir af skólaböllum eða veikburða tilraunum okkar til að virðast fullorðin og töff. Unga fólkið okkar er hins vegar í beinni útsendingu þar sem samanburður við aðra er leiðarljósið,“ sagði Katrín í ávarpi sínu.

Tæknin sameini í stað þess að sundra

Hún segir flókin algrím á netinu stjórna upplýsingaflæði til fólks og að það hafi orðið til þess að skilningurinn á þeim sem kunna að hugsa öðruvísi hafi dofnað. „Þannig getur tæknin sundrað í stað þess að tengja og það er óneitanlega ögrun fyrir öll samfélög.“

Tækniframfarir sýna hins vegar hvað mannkynið getur gert vel, segir Katrín. Aðgerðir stjórnvalda til þess að undirbúa fjórðu iðnbyltinguna munu snúa að menntakerfinu, rannsóknum,  nýsköpun, þróun á vinnumarkaði, mannréttindum og lýðræði. „Við þurfum að vera vakandi fyrir þeim samfélagslegu breytingum sem munu spretta af tækninni,“ sagði Katrín.

„Við sem hér búum erum einungis um 360 þúsund og megum ekki við því að hér myndist ólíkir samfélagskimar sem missa að lokum grundvöll allra samskipta,“ sagði Katrín. „Við þurfum að taka höndum saman og tryggja að tæknin verði hluti af þeim grundvelli til framtíðar, að hún sameini frekar en sundri.“

Auðlindaákvæði í stjórnarskrá tímabært

Katrín ræddi nokkur mál í ávarpi sínu. Má þar nefna mannréttindi, ólgu á vinnumarkaði, félagslegan stöðugleika, tæknibreytingar og íslenska tungu. Katrín fjallaði einnig um náttúru og auðlindir þjóðarinnar.

„Alþingi þarf að taka skýra afstöðu til laga og reglna sem gilda um jarðaviðskipti og eignarhald á landi sem fyrir okkur mörg er ein undirstaða fullveldis Íslands,“ sagði Katrín. „Þá er löngu orðið tímabært að sett verði auðlindaákvæði í stjórnarskrá sem festir í sessi með formlegum hætti þann rétt sem þjóðin hefur á auðlindum sínum.“

Skýrar kröfur um gagnsæi og upplýsingagjöf verða gerðar til fyrirtækja sem nýta sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar. Katrín segir það ófrávíkjanlega kröfu að farið sé að reglum í hvívetna, bæði á Íslandi og erlendis.

Við eigum að hlusta á unga fólkið

Það er unga fólkið sem hefur brýnt íslenska stjórnmálamenn til aðgerða gegn loftslagsvánni og við eigum að hlusta á skýrar raddir þess, sagði Katrín í áramótaávarpinu.

„Nú þarf að láta verkin tala og það erum við að gera,“ sagði Katrín. „Við erum að fjárfesta í orkuskiptum og kolefnisbindingu, í almenningssamgöngum og rafvæðingu hafna, við erum að leggja aukna áherslu á rannsóknir og nýsköpun í loftslagsmálum og grænar ívilnanir og grænir skattar munu hraða þessari þróun í rétta átt.“

Katrín segir að ekkert sé mikilvægara en von, bjartsýni og dugnaður til þess að árangur náist í loftslagsmálum. „Þar getur Ísland skipt máli með því að láta rödd sína heyrast um allan heim og það höfum við gert á þessu ári í samvinnu við aðrar þjóðir sem hafa lagt fram aðgerðaáætlanir í sínum málum. Við munum halda áfram á þeirri braut á nýju ári.“

Ávarpið má horfa á í spilaranum hér að ofan.