Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kynna mat á umhverfisáhrifum Einbúavirkjunar

14.08.2019 - 14:27
Við þjóðveg 85, Kinnin.
 Mynd: Vegagerðin - Vegagerðin
Einbúavirkjun ehf. hefur lagt fram frummatsskýrslu um mat á umhverfisáhrifum vegna Einbúavirkjunar í Skjálfandafljóti. Um er að ræða rennslisvirkjun í landi Kálfborgarár og Einbúa í Bárðardal.

Allir geta lagt fram athugasemdir

Kynningartími skýrslunnar stendur frá 21. ágúst til 2. september 2019 og geta allir kynnt sér frummatsskýrsluna og lagt fram athugasemdir. Hún verður aðgengileg á vef Skipulagsstofnunar og skulu athugasemdir berast skriflegar eigi síðar en 2. september. 

200 metra langt flóðvirki

Gert er ráð fyrir að reisa 200 metra langt flóðvirki þvert yfir Skjálfandafljót um 300 metra ofan við bæinn Kálfborgará. Þaðan veður vatni veitt úr Skjálfandafljóti um 1,3 kílómeta langan aðrennslisskurð að stöðvarinntaki þar sem Kálfborgará rennur í Skjálfandafljót. Stöðvarhús verður reist skammt neðan við inntakið og þaðan verður um 1,2 kílómetra langur frárennslisskurður út í Skjálfandafljót á móts við bæinn Einbúa, um 800 m neðan við ármótin við Kálfborgará. Vegna framkvæmda við virkjunina þarf að grafa upp um 330.000 rúmmetra af jarðefnum, sem að mestu leyti er sprengd klöpp.

Skipulagsstofnun leitað umsagnar víða

Fram kemur í tilkynnigu Skipulagsstofnununnar að stofnunin hefur leitað umsagnar Þingeyjarsveitar, Ferðamálastofu, Fiskistofu, Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra, Minjastofnunar Íslands, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Náttúruverndarnefndar Þingeyinga, Orkustofnunar, Umhverfisstofnunar, Veðurstofu Íslands og Vegagerðarinnar vegna málsins. 

 

odinnso's picture
Óðinn Svan Óðinsson