Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kynjaðar staðalímyndir bannaðar í auglýsingum

15.06.2019 - 18:14
Mynd með færslu
 Mynd: Pexels
Auglýsingar sem ýta undir hættulegar staðalímyndir kynjanna eru nú bannaðar í Bretlandi. Þessar nýju reglur tóku gildi í gær.

Undir reglurnar falla auglýsingar sem sýna hættulegar staðalímyndir kynjanna svo sem konur að þrífa meðan karlmenn slaka á, konur sem eiga erfitt með að leggja, eða karla sem ekki geta skipt um bleyjur.

Þá má ekki sýna karlmenn í neikvæðu ljósi sem sinna hlutverkum eða verkefnum sem talist gætu kvenlæg.

Einnig er bannað að tengja persónuleikaeinkenni sem gætu talist kvenlæg eða karlæg við stelpu eða stráka, svo sem hugrekki við drengi og blíðu við stúlkur.

Reglurnar voru settar eftar að skýrsla Breska auglýsingaeftirlitsins sýndi að kynjaðar staðalímyndir og orðræða geti leitt til ójafnréttis milli kynjanna.  

Skýrslan var birt í kjölfar auglýsinga í Bretlandi sem fjölluðu um konur og líkama þeirra í neikvæðu ljósi, en almenningur kallaði eftir því að slíkar auglýsingar yrðu fjarlægðar.