Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kynferðisbrot merki um þjóðarmorðsásetning

23.08.2019 - 11:00
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kynferðisbrot gegn Róhingjamúslimum, konum og börnum, af hendi stjórnarhersins í Mjanmar, voru merki um vilja til að þurrka út Róhingja, segir í nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna. Yfir 700 þúsund Róhingjar hafa flúið Mjanmar frá því ofsóknir gegn þeim hófust í ágúst árið 2017.

Skýrsla, sem sjálfstæð rannsóknarnefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna vann, kom út í dag. Stjórnvöld í Mjanmar neituðu nefndinni um inngöngu í landið. Við gerð skýrslunnar ferðaðst nefndin á milli flóttamannabúða í Bangladess, Taílandi og Malasíu til að afla upplýsinga.

Kynferðisofbeldi glæpur gegn mannkyninu

Í skýrslunni segir að kynferðisofbeldi af hálfu stjórnarhersins hafi verið útbreitt og markvisst og hundruðum nauðgað. Konur og stúlkur hafi aðallega verið beittar ofbeldi, en það hafi einnig beinst gegn karlmönnum, drengjum og hinsegin fólki. Flóttafólk hefur sagt sögur af manndrápi, nauðgunum, pyntingum og íkveikjum öryggissveita í Mjanmar. 

Í skýrslunni segir að þar sem kynferðisofbeldinu hafi verið beitt í tengslum við vopnuð átök teljist það glæpur gegn mannkyni og stríðsglæpur. Ofbeldið hafi verið merki um ásetning um þjóðarmorð.

Stjórnvöld í Mjanmar brugðist skyldu sinni

Ríkisstjórn Mjanmar hafi virt mannréttindi og alþjóðalög að vettugi og brugðist skyldu sinni um að láta gerendur svara til saka. Nú, tveimur árum síðar, hafi enn enginn verið látinn svara fyrir voðaverkin. Hæstsettu yfirmenn innan hersins halda enn stöðum sínum og hafa ekki verið sóttir til saka eða látnir sæta rannsókn vegna gruns um glæpi gegn mannkyni, stríðsglæpi og þjóðarmorð þrátt fyrir beiðnir Sameinuðu þjóðanna um  slíkt , segir í skýrslunni.

Aðgerðarleysi stjórnvalda beri merki um að þau samþykki aðgerðir hersins og komi í veg fyrir að Mjanmar verði talið lýðræðislegt ríki.

Ofsóknunum líkt við þjóðernishreinsanir

Yfir 700 þúsund Róhingjar hafa flúið Mjanmar. Stjórnvöld í Mjanmar neita að viðurkenna Róhingja sem þjóð og kalla þá frekar múslima eða Bengala. Það orð er notað í landinu yfir ólöglega farandverkamenn.

Ofsóknir gegn Róhingjum hófust í ágúst árið 2017. Þá réðust uppreisnarmenn úr röðum Róhingja að tugum landamærastöðva. Stjórnarherinn fór fram af svo mikilli hörku og ákefð gegn fólkinu að því hefur verið líkt við þjóðernishreinsanir. Róhingjar lögðu á flótta yfir landamærin og til Bangladess í kjölfar þess. 

Í skýrslu frá Sameinuðu þjóðunum segir að meira en 900 þúsund Róhingjar á flótta búi í flóttamannabúðum í Bangladess. Búðirnar eru þær stærstu í heiminum. Þar eru lífsskilyrði ekki góð og börn fá ekki menntun. Róhingjar verði áfram í Bangladess, enda hafi ástandið í Mjanmar ekki batnað og fólkið geti því ekki snúið aftur heim.