Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Kvöldið sem diskóið var sprengt í loft upp

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - Youtube

Kvöldið sem diskóið var sprengt í loft upp

18.09.2019 - 10:52

Höfundar

Að kvöldi 12. júlí árið 1979 var haldið hið svokallaða Gjöreyðingarkvöld diskósins (Disco Demolition Night). Þá stóð hverjum sem er til boða að borga einungis einn dollara inn á hafnaboltaleik hjá White Sox í Chicago afhentu þau diskóplötu/r við innganginn sem yrðu svo sprengdar í loft upp í leikhléi.

Ívar Pétur Kjartansson fjallaði um þennan stórfurðulega viðburð í þriðja þætti af Snúðunum sem breyttu heiminum á Rás 2. Gjöreyðingarkvöldið var skipulagt af útvarpsplötusnúðnum Steve Dahl, rokkhundi sem var fúll yfir því að útvarpsstöðin sem hann vann hjá skipti um stefnu og spilaði nú alfarið diskótónlist. Undanfarið hafði hann kynt undir andúð og hatri á diskói í þætti sínum og orðið svo áberandi að hann náði að sannfæra framkvæmdastjóra White Sox um að viðburðurinn væri góð auglýsing fyrir hafnaboltaliðið. Það átti hins vegar allt eftir að fara algjörlega úr böndunum. Þetta kvöld áttu White Sox frá Chicago og Detroit Tigers að spila tvisvar en í leikhléi myndi Dahl setja allar diskóplöturnar frá áhorfendum ofan í gám og sprengja í loft upp á miðjum vellinum.

Vanalega komu um 15 þúsund manns á leiki en þetta kvöld troðfylltist leikvangurinn. Yfir 50.000 mættu, megnið af þeim reiðir ungir hvítir karlar. Sprengingin á plötunum olli skemmdum á á vellinum og tugþúsundir þustu inn á hann í kjölfarið svo atburðurinn leystist fljótlega upp í skemmdarverk og skrílslæti. Aflýsa þurfti seinni leiknum og kalla til óeirðalögreglu til að dreifa mannfjöldanum.

Í þessari frétt má sjá svipmyndir frá viðburðinum.

Vince Lawrence, þá ungur þeldökkur starfsmaður vallarins, hefur sagt að andrúmsloftið um kvöldið hafi orðið verulega óþægilegt. Hann tók fljótt eftir því að plöturnar sem mennirnir komu með til að sprengja voru alls ekki bara diskóplötur, til dæmis komu margir með rólega sálartónlist frá Curtis Mayfield og Tyrone Davis, en allar áttu það sameiginlegt að vera með svörtum listamönnum á umslaginu.

Mynd með færslu
 Mynd: .
Fljótt eftir að plötugámurinn var sprengdur leystist kvöldið upp í óeirðir.

Þá gerðu ýmsir hróp og köll að Lawrence sjálfum, brutu plötur fyrir framan nefið á honum og viðhöfðu ógnandi framkomu. Í seinni tíð vilja margir meina að rót diskóhatursins hafi verið rasismi og hómfóbía, en diskótónlistin spratt einmitt upp úr jarðvegi hinna jaðarsettu, klúbbum samkynhneigðra, svartra og rómanskra. Mörgum þótti þess vegna stinga í stúf að White Sox-liðið hafi fengið Steve Dahl til að taka þátt í 40 ára afmælisfögnuði fyrr í sumar og gefa boli með áletruninni Disco-Demolition.

Eftir þetta komst diskótónlistin ekki aftur í efstu sæti vinsældarlista og mjatlaðist út úr meginstraumnum. En hún hvarf þó ekki heldur lifði góðu lífi á hommaklúbbum í New York, San Fransisco og víðar, og upp úr henni spratt svo hústónlist í Chicago og teknó í Detroit á níunda áratugnum. Hinn ungi Vince Lawrence sem var að vinna á White Sox-vellinum þetta örlagaríka kvöld náði að nappa nokkrum diskóplötum óskemmdum með sér heim og kaupa sér sinn fyrsta hljóðgervil fyrir launaseðilinn. Nokkrum árum síðar varð hann plötusnúður og frumkvöðull í hústónlist, gaf meðal annars út lagið On and On ásamt Jesse Saunders árið 1984 sem oft er talað um sem fyrsta „house“-lagið.

Í þriðja þætti af Snúðunum sem breyttu heiminum fjallar Ívar Pétur um síðustu daga diskósins og fæðingu hús- og teknótónlistarinnar. Hægt er að hlusta á þáttinn og eldri þætti í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Upphaf diskósins í New York

Popptónlist

Hljóðkerfin og plötusnúðastjörnurnar á Jamaíku

Tónlist

„Djamm er ekki bara djamm“

Tækni og vísindi

Vasadiskóið fertugt og stenst tímans tönn