Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Kvikuinnskot við rætur Öræfajökuls

Mynd með færslu
 Mynd: Ómar Ragnarsson - RÚV
Lítið kvikuinnskot er nú að þrýsta sér inn í jarðskorpuna undir sunnanverðum Öræfajökli. Þetta er niðurstaða vísindaráðs almannavarna. Jarðfræðingur segir svona atburðarrás geta tekið langan tíma, og óljóst hvort og þá hvenær hún endi með eldgosi.

Jarðvísindamenn hafa verið að fylgjast með hræringunum undir Öræfajökli á þrennan hátt - með jarðskjálftamælingum, fylgjast með jarðhita og með því að mæla hreyfingar á jarðskorpunni með GPS- og gervitunglamælingum. Niðurstöður á athugun þessara gagna saman var kynnt fyrir vísindaráði almannavarna í dag. GPS- og gervitunglamælingarnar sýna þenslu við suðurjaðar jökulsins, sem ekki skýrast af rýrnun jöklanna. Þetta var svo metið með aukinni jarðskjálftavirkni og auknum jarðhita.

„Okkur finnst mörgum líklegast að þarna séu vísbendingarnar orðnar ansi skýrar, myndin sé að skýrast um kvikuinnskot í rætur Öræfajökuls,“ segir Freysteinn Sigmundsson jarðeðlisfræðingur.

Innskotið sé í efstu sex kílómetrum jarðskorpunnar undir sunnanverðum jöklinum. Það er þó ekki stórt - umtalsvert minna en það sem var forboði gossins í Eyjafjallajökli. „Þetta hefur haft áhrif á jarðhitann og það er stórt rúmmál í jarðskorpunni. Jarðskjálftarnir eru dreifðir undir öskju Öræfajökuls,“ segir Freysteinn.

Hann segir vel þekkt að svona atburðarás haldi lengi áfram. „Hún getur haldið áfram á svipuðum hraða, það getur hægt á henni eða aukið, getur komið hlé. Það getur endað með eldgosi en tímaskalann á því er mjög erfitt að meta á þessu stigi. Við þurfum að vakta Öræfajökul sem allra best og fylgjast með hvað fjallið er að reyna að segja okkur um framtíðarhegðun. Við vitum það ekki alveg á þessari stundu.“

Vísindaráð almannavarna ákvað í dag að áfram verði óvissustig almannavarna við Öræfajökul.

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV