Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kvikmynd um Héraðsveru Kjarvals og siglinguna miklu

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV

Kvikmynd um Héraðsveru Kjarvals og siglinguna miklu

08.12.2019 - 20:02

Höfundar

Ný leikin heimildarmynd um listmálarann Jóhannes Kjarval segir ósagða sögu um sumardvöl hans í Hjaltastaðarþinghá á Héraði. Þar tengdist hann álfum, kúm og öðrum heimamönnum og fór í fræga siglingu á báti sínum Gullmávinum.

Á leiðinni frá Egilsstöðum til Borgarfjarðar eystri blasir við Hvammur sem í seinni tíð hefur hlotið nafnið Kjarvalshvammur. Þarna bjó og starfaði Kjarval mislengi í 20 sumur, allt til 1968. Þetta heillaði kvikmyndagerðarmanninn Ásgeir Hvítaskáld. „Hann á leið hér hjá óvart og tjaldar hérna því hann komst ekki leiðar sinnar og heillaðist af þessum Kjarvalshvammi hér er líka alveg stórkostlegt útsýni. Þannig að hann var að mála hér myndir um miðjað nætur á náttfötunum uppi á hamrinum til dæmi þrjú málverk í einu. Hann málaði Selfljótið og hann málaði fjöllin og hann málaði móana og hann málaði álfkonurnar sem hann sá,“ segir Ásgeir.

Í myndinni er talað við fólk úr sveitinni sem vingaðist við Kjarval og þekkti hann af fleiru en frægum uppátækjum sem vissulega voru mörg. „Hér inni er báturinn Gullmávurinn, sem var smíðaður í Noregi sérstaklega handa Kjarval. Kjarval fór í eina siglingu frá Unaósi og yfir á Borgarfjörð eystri því hann var alinn upp á Borgarfirði eystri. Og það var svolítið sérstök ferð. Það var eitthvað sem skipti hann miklu máli. Það mátti enginn koma og hjálpa honum. Þegar trillurnar komu á móti honum og ætluðu að draga hann inn þá fussaði hann og sveiaði og enginn fékk að hjálpa honum og þessi ferð var eitthvað sem skipti hann mjög miklu máli. Hann þurfti að afgreiða þessa ferð,“ segir Ásgeir.

Jón Hjartarson fer með hlutverk Kjarvals í myndinni sem sýnd er í bíó Paradís og víðar. „Eitt sinn kom hér kýr og var eitthvað að snuðra í kringum karlinn og karlinn hann bauð henni bara inn í kofann þennan litla kofa og það eru margar sögur í kringum það. Sumt af þessu er svolítið ýkt en ég er í minni mynd að fókusera á manninn Jóhannes Kjarval ekki endilega málverkin heldur hver var maðurinn og hver var tenging hans, það var mjög sérstök tenging við náttúruna.“

 

Tengdar fréttir

Myndlist

Kjarval var frumkvöðull í náttúruvernd