Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Kvika nær yfirborði bungunnar en talið var

23.11.2014 - 12:32
Mynd með færslu
 Mynd:
Bráðabirgðaniðurstöður nýrra jarðskjálftamælinga í Bárðarbungu benda til að heitt efni, líklega kvika, sé miklu nær yfirborðinu en hingað til hefur verið talið. Kristín Jónsdóttir, fagstjóri jarðvár á Veðurstofu Íslands, segir að ekki megi sofna á verðinum gagnvart Bárðarbungu, þar geti orðið gos.

„Það var settur út nýr mælir, hröðunarnemi, í Bárðarbunguna sjálfa, við hliðina á GPS-tækinu. Gögn fóru að berast á mánudaginn og við erum með allra fyrstu niðurstöður frá þessum mæli. Þær benda til þess að skjálftarnir í Bárðarbungunni sjálfri séu mun grynnri en við höfum talið áður,“ segir Kristín.

Skjálftarnir virðist vera á eins til þriggja kílómetra dýpi í stað fimm til átta kílómetra dýpi, eins og hingað til hefur verið talið. Kristín tekur fram að þetta séu fyrstu niðurstöður þessara nýju mælinga. „Við erum að fá minni dýptartölur, og í rauninni tölur sem benda til þess að þarna sé grynnra niður á heitt efni en við töldum áður.“

Og gæti það bent til þess að það séu meiri líkur á gosi en hingað til hefur verið talið? „Ef þetta er rétt túlkun hjá okkur, við erum auðvitað enn þá að fara yfir og reyna að samtúlka öll gögnin, en þetta sýnir að við verðum að halda áfram að skoða þetta mál. Þetta dregur enn fókusinn að Bárðarbungu, og því sem þarna getur gerst. Þarna getur orðið gos.“