Kvennalið Vals í körfubolta er lið ársins árið 2019

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Kvennalið Vals í körfubolta er lið ársins árið 2019

28.12.2019 - 20:50
Sjaldan hefur kjörið verið eins jafnt en kvennalið félagsins í handbolta var í öðru sæti. Valskonur unnu alla titla sem í boði voru á síðustu leiktíð í körfuboltanum. Valur varð deildarmeistari, bikarmeistari og Íslandsmeistari í vor en fyrir tímabilið hafði Valur aldrei unnið stóran titil í kvennaflokki.

Þetta var í fyrsta sinn sem félagið er á meðal efstu þriggja liða í kjörinu og í fyrsta skipti sem það vinnur.

Aldrei hefur verið jafn mjótt á munum en kvennalið Vals í handbolta hlaut jafnmörg stig í atkvæðagreiðslu íþróttafréttamanna. Skera þurfti úr um sigurvegara með því að telja hvort liðið hefði oftar verið sett í fyrsta sæti. Þar varð körfuboltaliðið ofan á. Handboltaliðið vann, rétt eins og körfuboltaliðið, alla titla sem í boði voru á síðustu leiktíð.

Í þriðja sæti var þá karlalið Selfoss í handbolta sem varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn í sögunni í vor.