Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Kvennalandsleikir voru ekki auglýstir

Vanda Sigurgeirsdóttir, lektor við Háskóla Íslands. - Mynd: kvan.is / kvan.is

Kvennalandsleikir voru ekki auglýstir

12.07.2017 - 16:11
Saga kvennaknattspyrnu á Íslandi er stutt en ansi viðburðarík, ekki síst á síðustu árum. Vanda Sigurgeirsdóttir, lektor í tómstunda- og félagsmálafræðum við Háskóla Íslands, segir stöðu mála hafa breyst töluvert frá því hún spilaði sinn fyrsta landsleik árið 1985.

„Fysti íslenski kvennalandsleikurinn var á móti Skotum árið 1981. Þetta var rosaleg breyting fyrir okkur stelpurnar að fá allt í einu landslið,“ segir Vanda en hún var þá sextán ára og hafði dreymt um að leika með landsliðinu og eygði þá loks möguleika á því.  

„Breytingarnar sem hafa orðið á síðustu árum eru svo gríðarlegar að maður fær reglulega tár í augun yfir öllum þessum dásemdum sem eru að gerast.“ Vanda hrósar Knattspyrnusambandi Íslands fyrir að halda vel utan um kvennalandsliðið. Hún tekur þó fram að enn sé töluvert í land, jafnfrétti sé ekki náð. 

„Prinsipp“ að auglýsa ekki kvennalandseiki

En hvað hefur breyst? „Það eru alls konar reglur, við máttum til dæmis ekki vera í skrúfutakkaskóm, leiktíminn var styttri, það var enginn læknir á leikjum og við máttum vera með færri leikmenn en strákarni,“ telur Vanda upp sem dæmi. Hún bætir svo við að á sínum tíma hafi það verið „prinsipp“ að auglýsa ekki leiki kvennalandsliðsins. „Svo það er ekki skrýtið að það hafi ekki margir komið að horfa á okkur. “

Vanda byrjaði að æfa með strákaflokk á Sauðárkróki þegar hún var 9 ára gömul. „Það var ekki gert neitt mál úr þessu á Króknum, ég varð ekki fyrir neinu aðkasti, ég var bara ein af strákunum.“

Fyrsta fótboltaliðið með jafnlaunastefnu

Hún segist vona að framþróun í jafnréttismálum haldi áfram og bendir á að fótboltaliðið Lewes FC hafi nýlega tekið ákvörðun um að greiða kvenkyns liðsmönnum sínum jafnhá laun og karlkyns. 

Mynd með færslu
 Mynd: bbc

„Ég veit ekki hver orsök þessa launamunar er. Þetta er náttúrlega í menningunni, fótbolti var náttúrlega búinn til af körlum fyrir karla. Það er alltaf talað um fjölda áhorfenda, en á síðasta kvennalandsleik komu tæplega átta þúsund manns, hvað komu margir á síðasta landsleik í körfubolta karla, eða handbolta karla? Þetta er ekki svona einfalt.“ Vanda segist þess utan vona að fyrirtæki landsins styðji ekki við kynjamisrétti með því að styrkja aðeins annað kynið. 

Biðu úti meðan strákarnir borðuðu súpu

Hún segir sannarlega ekki vanta áhugann hjá kvenþjóðinni, en tækifærin þurfi að vera til staðar. „Ég fékk þau skilaboð þegar ég var að alast upp að það sem ég væri að gera væri minna mikilvægt og ekki eins flott. Þau skilaboð fékk ég í gegnum fjölmiðla, styrktaraðila, æfingartíma og búnað. Strákarnir fengu fótboltaskó, æfingagalla og ferðagalla. Við fórum einu sinni í rútu til Reykjavíkur og strákarnir fóru inn á hótel og setjast við borð og fá sér súpu, en við biðum fyrir utan meðan þeir borðuðu,“ segir Vanda en hún segist kunna margar sögur í líkingu við þessa. „Það er ekki gott fyrir stelpur að fá þessi skilaboð, en heldur ekki gott fyrir stráka.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Hún ítrekar að fyrirmyndir af báðum kynjum séu mikilvægar í íþróttum. „Strákarnir þurfa líka að sjá að það eru flottar stelpur í íþróttum.“ Hún segist gleðjast yfir að sjá barist fyrir jafnrétti kynjanna á vellinum og rifjar upp myndskeið sem fór eins og eldur um sinu um netheima fyrir skemmstu, þar sem körfuboltaþjálfari í KR spurði fríðan flokk ungra drengja hver væri besti körfuboltaleikmaðurinn á Íslandi. Þar stóð ekki á svari: Perla Jóhannsdóttir.  

Mynd með færslu
 Mynd:

Myndi vilja vera 10 ára í dag

„Framþróunin hefur verið gríðarleg. Ef ég ætti einhvern galdratakka til þess að ýta á, þá væri ég til í að vera tíu ára í dag,“ segir Vanda Sigurgeirsdóttir, lektor í tómstunda- og félagsmálafræðum og fyrrum landsliðskona og -þjálfari. Hún endar að sjálfsögðu á að senda Stelpunum okkar heillaóskir. „Áfram Ísland!“

Tengdar fréttir

Fótbolti

Heimsmeistarar hóta verkfalli