Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Kvarta til ESA verði áfengisfrumvarp samþykkt

02.02.2016 - 19:11
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Verði áfengisfrumvarpið svokallaða samþykkt óbreytt og einkaleyfi ÁTVR á áfengissölu afnumið verður þegar í stað kvartað til Eftirlitsstofnunar EFTA. Þetta kemur fram í bréfi sem sent hefur verið á alla þingmenn, nokkur ráðuneyti, Samkeppnisstofnun og Eftirlitsstofnunina.

Hæstaréttarlögmaðurinn Stefán Geir Þórisson skrifar undir bréfið fyrir hönd umbjóðenda sinna en ekki kemur fram hverjir þeir eru. Í bréfinu segir að ákvæði í frumvarpinu séu samkeppnishamlandi og skoða þurfi vandlega hvort þau brjóti í bága við EES samninginn. Því sé athygli Eftirlitsstofnunarinnar og Samkeppniseftirlitsins vakin. 

ÁTVR hefur hingað til farið með einkasölu áfengis í smásölu, síðustu áratugina undir ströngum skilyrðum Eftirlitsstofnunar EFTA. Bréfritari segir að þrátt fyrir ýmsar athugasemdir Eftirlitsstofnunarinnar í gegnum árin hafi verið bætt úr og teljist reglurnar standast EES samninginn í dag. Í frumvarpinu séu hins vegar ýmis ákvæði sem breyti regluverkinu og þau þurfi að skoða vandlega, til að mynda hvort jafnræði raskist, hvort samkeppnishindranir séu til staðar, hvort rök fyrir auglýsingabanni standist ef ÁTVR hefur ekki lengur einkaleyfi á smásölu og hvort í reynd sé verið að framselja einkasölu til þriggja markaðsráðandi verslanakeðja, sem stjórni tæplega 90 prósentum af smásölumarkaðnum.