Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Kvarta til EFTA vegna brotalama á framkvæmd hópuppsagna

10.02.2020 - 12:24
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja hafa sent kvörtun til eftirlitsstofnunar EFTA. Þau telja að framkvæmd hópuppsagna á Íslandi sé verulega ábótavant, sem hafi sýnt sig þegar Arion banki sagði upp rúmlega 100 manns í haust.

Lögum samkvæmt ber atvinnurekanda að hafa samráð við trúnaðarmann starfsfólks vegna yfirvofandi hópuppsagnar, áður en endanleg ákvörðun er tekin. Með samráðinu á að leita leiða til þess að forðast hópuppsagnirnar, minnka skaðann eða undirbúa félagslegar aðgerðir fyrir starfsmenn. Lögin eru byggð á Evróputilskipun en SSF, Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja, telja að ekki hafi verið staðið rétt að innleiðingu hennar hér á landi. Því sé framkvæmd hópuppsagna ófullnægjandi.

Í kvörtun samtakanna til ESA, eftirlitsstofnunar EFTA, kemur fram að trúnaðarmanni starfsmanna Arion banka hafi verið tilkynnt um yfirvofandi uppsagnir í haust, en með vísun í innherjareglur var komið í veg fyrir að hann gæti ráðfært sig við stéttarfélag starfsmanna. Hann hafði því engan möguleika á að hafa áhrif á ákvarðanatöku bankans, sem sagði upp rúmlega 100 starfsmönnum í september. Kvartað var til Vinnumálastofnunar í kjölfarið, sem taldi að Arion banki hefði farið að lögum með því að tilkynna um yfirvofandi hópuppsögn. 

„Ég skildi það nú ekki þannig að með því væri tekin nein afstaða af eða á um hina regluna sem er fókusinn í kvörtun okkar til ESA. Sem er skilda atvinnurekenda að hafa samráð í aðdragana ákvörðunar um hópuppsögn,“ segir Oddur Ástráðsson, lögmaður SSF.

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jónsson - RÚV
Oddur Ástráðsson.

Breyta þurfi ákvæði um fjöldaviðmið hópuppsagna

Í kvörtun samtakanna er bent á mögulegar leiðir til úrbóta, til dæmis að færa lög um hópuppsagnir undir Félagsdóm. Einnig þurfi að skýra refsiábyrgðina.

„Í öðrum ríkjum sem hafa innleitt sömu Evróputilskipun þar er til dæmis lögð skýr refsiábyrgð við því að brotið sé gegn þessum reglum. Sú refsiábyrgð getur jafnvel hvílt á stjórnendum þeirra fyrirtækja sem í hlut eiga,“ segir Oddur. 

Í bréfi til ráðherra sem sent var samhliða kvörtuninni til EFTA kemur fram að það hljóti að þurfa að breyta ákvæðum laganna um fjöldaviðmið hópuppsagna. Lögin verði að eiga við þegar fjöldi uppsagna nær því marki á tilgreindu tímabili, svo sem á hverjum 12 mánuðum, svo að atvinnurekendur geti ekki sniðgengið lögin með því einu að dreifa uppsögnum yfir mánaðamót.

Það sé óþolandi staða að atvinnurekendur sem hyggja á hópuppsagnir geti sleppt því að viðhafa raunverulegt samráð við starfsmenn án þess að hafa neitt að óttast varðandi viðurlög vegna slíkra brota, segir í bréfi til ráðherra.