Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kuldinn eitt það allra heitasta í dag

Mynd með færslu
 Mynd: .
Norðurslóðir eru spennandi. Túrismi hefur náð nýjum hæðum í Finnlandi og lagt er upp með að nýr skemmtigarður, Lýðveldi jólasveinsins, laði á næstu árum tíu milljónir gesta til Rovaniemi árlega. Mikil aukning hefur orðið í komum skemmtiferðaskipa til Svalbarða og Rússar sjá tækifæri í að byggja upp ferðaþjónustu á Frans Jósefslandi. 

Lýðveldi jólasveinsins trekkir að milljónir

Metfjöldi ferðamanna sótti Finnland heim í fyrra, 6,8 milljónir. Örastur er vöxturinn í vetrartúrisma og helmingur þeirra sem sóttu Finnland heim í fyrir jólin dvaldi á Lapplandi. 

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia commons
Rovaniemi.

Finnar hafa lengi haldið því fram að Rovaniemi sé heimabær jólasveinsins, ferðaþjónustufyrirtæki á Lapplandi gera út á það og í desembermánuði ár hvert koma tugþúsundir ferðamanna, flestir fljúgandi frá öðrum Evrópuríkjum, til að skoða þorp jólasveinsins, vaða snjó og freista þess að sjá norðurljós. Þetta er allt voða krúttlegt - en nú stendur til að hefja ferðaþjónustuna í heimabæ jólasveinsins upp á annað stig. Skammt frá Rovaniemi á að rísa nyrsti skemmtigarður heims. Alþjóðlegir fjárfestar og finnskt ríkisfyrirtæki sem hefur umsjón með ríkislóðum, undirrituðu í sumar viljayfirlýsingu um leigu á landsvæði undir skemmtigarðinn til fimmtíu ára. Í Lýðveldi jólasveinsins á að meðal annars að rísa jólatréslaga hótel, sánuþorp og risastór glerhvelfing þar sem snjóar allt árið. Í umfjöllun Barents observer, sjálfstæðs fjölmiðils sem sérhæfir sig í hánorrænum tíðindum, kemur fram að fjárfestingin sé upp á um milljarð evra, það sé gert ráð fyrir tíu þúsund starfsmönnum og tíu milljónum gesta á hverju ári. Tíu milljónir gesta í stað þeirra 90 þúsund sem heimsækja jólaþorpið í Rovaniemi árlega. Lýðveldi jólasveinsins myndi trekkja að tvöfalt fleiri en tívolíið í Kaupmannahöfn. Hvað er á bak við þessi svakalegu áform? Þessu er svarað í grein Barents observer: Snjór, kuldi og náttúra heimskautasvæðanna er við það að verða eitt heitasta trendið í ferðaþjónustu í heiminum. Hefur á sér exótískan og spennandi blæ. 

Sannfærandi mynd af samfélagi Sama

Norðurslóðamenning virðist líka eiga upp á pallborðið. Teiknimynd Disney, Frosin tvö, sækir til dæmis innblástur í menningu Sama og á vef norska ríkisútvarpsins er greint frá því að Disney starfað náið með fulltrúum Sama við vinnslu myndarinnar, til að tryggja að sú mynd sem dregin er upp af samfélagi þeirra samræmist sýn þeirra sjálfra. 

Mynd með færslu
 Mynd: Disney
Elsa kannar nýjar lendur í norðri í Frozen 2.

Skemmtiferðaskipin við Svalbarða

Meðalhiti á jörðinni hækkar og á norðurslóðum er hlýnunin meiri, frá árinu 1970 hefur meðalhiti á Svalbarða hækkað um fjórar gráður. Eyjaklasinn er orðinn aðgengilegri og það hafa skemmtiferðaskip og leiðangursskip nýtt sér. Leiðangursskipin eru ólík skemmtiferðaskipum að því leyti að þau taka færri farþega, þó sum beri vel nokkur hundruð. Þau eru minni, komast nær landi, inn þrengri firði og þau hleypa farþegum ekki bara í land í hefðbundnum höfnum, þeir fá líka að sigla í land hér og þar á litlum bátum og kanna óbyggð svæði eða þorp sem hingað til hafa verið utan seilingar. Ferðaþjónustufyrirtæki keppast um að finna auð, óspillt svæði þar sem hægt er að fara í land, svæði sem hægt er að kanna án þess að rekast á aðra ferðalanga eða mæta fjölda annarra skipa á leiðinni þangað. 

Í fyrra komu um 66 þúsund ferðamenn sjóleiðina til Svalbarða, en þar búa tæplega 3000 manns. Fyrir tíu árum voru skipaferðalangarnir bara 30 þúsund. Enn koma flestir með stórum skemmtiferðaskipum en síðustu ár hefur fjölgað mjög í hópi þeirra sem koma með minni leiðangursskipum. 
Þar með hefur skipunum líka fjölgað. 

Mynd með færslu
 Mynd: Jerzy Strzelecki - Wikipedia
Nýibær á Svalbarða.

Leiðangursskipin skili meiru

Í fréttatilkynningu frá AECO, samtökum ferðaþjónustufyrirtækja sem bjóða upp á leiðangurssiglingar um Norðurslóðir, kemur fram að komur skemmtiferða- og leiðangursskipa hafi í fyrra skilað Svalbarða 110 milljónum norskra króna. AECO halda því fram að hver farþegi á leiðangursskipi leggi fimmfalt meira til samfélagsins en farþegar hefðbundinna skemmtiferðaskipa. 

Tilfinningar fólks gagnvart auknum skipakomum eru blendnar. Audun Salte rekur ferðaþjónustu á Svalbarða, er með gistingu og sleðahunda. Í samtali við Rússnesku fréttastofuna Reuters segist hann vilja takmarka fjöldann. Segir loftslagsbreytingar ýta undir vinsældir Svalbarða en að stóraukinn túrismi ýti á sama tíma undir loftslagsbreytingar og ógni viðkvæmu vistkerfi svæðisins.

Mynd með færslu
 Mynd: Pixabay
Heimskautarefur.

Fleiri hafa lýst yfir áhyggjum af auknum ferðamannastraumi norður fyrir heimskautssbaug, ferðamennirnir gisti ekki í landi, skilji lítið eftir sig og mengun frá skipunum skaði umhverfið og lífríkið. Arved Fuchs, þýskur landkönnuður og umhverfisverndarsinni sagði í samtali við Guardian í sumar að partískip ættu ekki heima á Norðurslóðum og að honum ofbyði að sjá stóra hópa ferðamanna leggja undir sig inúítaþorp og gera lítið annað en að glápa á íbúa. 

Byggja upp gestastofur í einskismannslandi

Mynd með færslu
 Mynd: Pixabay
Myndað af skipinu.

Rússar vilja ekki fara varhluta af nýjum tækifærum. Fólk þyrstir í eitthvað einstakt, sterkar tilfinningar, dýraíf, heiðan himinn, er haft eftir aðstoðarforstjóra Rosturizm, ferðamálastofnun Rússa. Á vef Barents observer er greint frá nýrri gestastofu á Gúker-eyju, stærstu eyju Frans Jósefslands, afskekkts eyjaklasa sem tilheyrir Arkangelsk-fylki og er nokkuð austur af Svalbarða. Sovíeskir landkönnuðir komu upp rannsóknasetri á Gúker-eyju árið 1929 og margir heimskautafarar hafa síðan haft þar viðkomu og nú, níutíu árum síðar geta ævintýragjarnir ferðamenn sem hafa nóg á milli handanna komið þangað og kynnt sér söguna. Sex byggingar hafa fengið yfirhalningu og til stendur að byggja hótel þarna í auðninni. Gestastofan var opnuð þann þrítugasta ágúst í tengslum við komu leiðangursskipsins Silver Explorer, um borð voru 144 ferðamenn og hver þeirra hafði greitt 33 þúsund evrur fyrir siglinguna frá Nome í Alaska til Tromsö í Noregi. Aleksandr Kirilov, þjóðgarðsvörður, sagði í samtali við Barents observer að vinsældir heimskautasvæðanna jykust sífellt og því væri nauðsynlegt að byggja upp innviði sem laði fólk að. Hann segir að í dag velji ferðamenn að fara til Íslands eða Svalbarða en með því að greiða úr ýmsum flækjum geti Franz Jósefsland orðið raunhæfur kostur og sömuleiðis annar eyjaklasi sem tilheyrir þjóðgarðinum, Novaja Semlja (fyrr á árinu lýstu yfirvöld þar yfir neyðarástandi eftir að svangir hvítabirnir tóku aðal þéttbýliskjarnann hálfpartinn í gíslingu).

 Í dag þurfa skipin að sigla alla leið til Múrmansk og fá tollafgreiðslu áður en þau mega koma í land á Frans Jósefslandi og það krefst þess að þau leggi á sig þriggja daga siglingu. Kirilov vill að skipin fái undanþágu og að komið verði upp eftirlitsstöð á Franz Jósefslandi þar sem ferðamenn geti fengið tímabundið leyfi til að fara yfir rússnesku landamærin. Þannig gætu skipin sem nú flytja þúsundir til Svalbarða einnig haft viðkomu á Franz jósefslandi. 

Útlit fyrir frekari vöxt í Norðurslóðatúrisma

Mynd með færslu
 Mynd: Hrókurinn
Frá Kulusuk.

Í umfjöllun breska blaðsins Guardian kemur fram að farþegum skemmtiferðaskipa hafi snarfjölgað á síðustu tíu árum. Árið 2009 sigldu 11 milljónir um heimsins höf með slíkum skipum, í fyrra voru farþegarnir 28,5 milljónir, rosknir Þjóðverjar og Bretar eru áberandi í þessum hópi. Skipin geta nú siglt um allt eða því sem næst og það er útlit fyrir að ekkert lát verði á vextinum í bráð, nú eru 124 skip í smíðum, sum mjög rammgerð, sérstaklega smíðuð til að sigla um norðurslóðir, geta kannað enn afskekktari svæði en áður. Það er ævintýraþráin sem togar, þorstin eftir því að kanna síðustu lítt könnuðu svæðin en líka þvíað fá að virða þessi svæði fyrir sér áður en ísinn bráðnar, grípa síðasta sénsinn. Sumir tala um heimsendatúrisma í þessu samhengi - það eru tækifæri en líka áhyggjefni tengd áhrifum á viðkæm samfélög og lifnaðarhætti þeirra, áhrifum á lífríki,  loftslagsáhrifum og öryggi farþega á síafskekktari slóðum. Eitt er ljóst - norðrið er í sókn og fleiri en Elsa í Frozen ætla að kanna ný lönd. 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV