Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Kúgandi valdakerfi kynferðislega rándýrsins í Hollywood

Mynd: EPA / EPA

Kúgandi valdakerfi kynferðislega rándýrsins í Hollywood

11.03.2020 - 17:03

Höfundar

Ritdómari Víðsjár rýnir í tvær nýjar blaðamennskubækur um kynferðislega Hollywood-rándýrið Harvey Weinstein sem var dæmt í 23 fangelsi í dag, She Said eftir Jodi Kantor og Megan Twohey og Catch and Kill eftir Ronan Farrow.

Björn Þór Vilhjálmsson skrifar:

Við vitum þetta, höfum heyrt sögurnar, og kannski er þetta allt bara orðið gott. Hvítu, þykku slopparnir sem opnast eins og af eigin frumkvæði, sturtan og heitu hótelpottarnir, óskirnar, beiðnirnar, öskrin og kröfurnar um „nudd“, risvandamálssprauturnar sem bognir og bugaðir aðstoðarmenn koma með á hlaupum. Já, sóðabraskið í kringum Harvey Weinstein er orðið velþekkt, allt þetta ofbeldi, öll þessi lágkúra, atburðarás sem er í senn sorgleg og hrollvekjandi.

Það eru að verða tvær vikur síðan Weinstein var sakfelldur; fundinn sekur um tvær af þeim fimm kærum sem fram voru bornar í dómssal í New York, og þannig virðist málinu sem reyndist einn mikilvægasti aflvaki #metoo hreyfingarinnar ætla að ljúka. Kvikmyndamógúllinn er fallinn – maðurinn sem stofnaði Miramax og leiddi óháða bíóið og alþjóðlegu listamyndina til vegsemdar og virðingar ­í Bandaríkjunum – hann er á leið í fangelsi. Það má nefna að brotin sem Weinstein var sakfelldur fyrir nefnast annars vegar fyrstu gráðu kynferðisárás (e. first degree criminal sexual assault) og svo hins vegar þriðju gráðu nauðgun (e. rape in the third degree), en líkt og víða eru brotaflokkarnir í kynferðisbrotamálum margir í Bandaríkjunum og leitast er við að aðgreina með einhverjum hætti, skynsamlegum vonandi, einn glæp frá öðrum þegar rök má færa fyrir því að um stigsmun sé að ræða hvað háska, grimmd, skaða, valdbeitingu og ofbeldi varðar.

Ástæða er samt til að staldra við í augnablik, enda þótt við séum varla byrjuð. Sakfelldur í tveimur af fimm kæruliðum? Weinstein var með öðrum orðum sýknaður af fleiri kærum en ekki, og þar á meðal eru tvær alvarlegustu kærurnar? Jú, þetta er niðurstaðan. Brotin tvö sem hann var sakfelldur fyrir hverfast bæði um samþykki, annars vegar er lýtur að snertingu og hins vegar samræði. Nú mætti ímynda sér að saksóknarar og fórnarlömb væru heldur ósátt við málalok, svona á heildina litið, en svo virðist almennt ekki vera. Er þá litið til þess að í kviðdómendakerfinu skipast veður oft allfljótt í lofti, fjárhagsleg hagsæld hins ákærða vill hér oftast vega þyngst, og tengist það auðvitað þeim lögmannaflota sem í krafti auranna er hægt að siga á andstæðingana. Það voru með öðrum orðum margir sem höfðu enga trú á því að Harvey yrði sakfelldur.

Þá þótti saksóknari New York borgar taka býsna mikla áhættu með því að tefla fram kærum fyrir hönd tveggja kvenna sem í kjölfar brotanna hófu með samþykki kynferðissamband við Weinstein, og varði annað þeirra í nokkur ár. Mál af þessu tagi, þar sem hegðun kvenna þykir ekki samræmast ákveðnum fyrirframgefnum hugmyndum um það hvernig kvenfórnarlömb eiga að bera sig, hafa almennt verið talin of flókin og áhættusöm, ekki líkleg til að leiða til sakfellingar, og þess vegna látin niður falla. En nú vill svo til að sakfellingarnar báðar í Weinstein réttarhöldunum voru einmitt fyrir þessi brot, nokkuð sem þykir sigur fyrir #metoo hreyfinguna en einnig fyrir rekstur kynferðsbrotamála almennt þar í landi.

Nú þegar fyrsta dómsmálið er að baki vakna samt ýmsar spurningar. Hvernig komst Weinstein upp með gjörðir sínar, hvernig komst hann upp með þetta allt jafnlengi og hann gerði, áratugum saman? Það voru ríflega áttatíu konur sem að þessu sinni stigu fram með sögur af brotum Weinstein gegn sér, og eitt af fórnarlömbunum lét þau orð falla í fjölmiðlum að Weinstein gæti vel verið – og hér er vitnað beint –  „afkastamesti nauðgari nútímans“; nógu lengi var hann allavega að, elsta málið sem komið hefur upp á yfirborðið slagar í að vera hálfrar aldar gamalt. Og alltaf virtist hann vera ósnertanlegur. Hvernig má það vera?

Leitast er við að svara þessum spurningum og öðrum áþekkum í tveimur nýlegum bókum eftir blaðamennina sem árið 2017 sviptu hulunni af Harvey Weinstein, og hlutu fyrir vikið Pulitzer verðlaunin. Hér er um að ræða She Said, eða Hún sagði, eftir Jodi Kantor og Megan Twohey, en báðar starfa þær á The New York Times, og Catch and Kill, eða Grípum og söltum, eftir Ronan Farrow, en skrif sín birti Farrow í vikuritinu New Yorker. Saman draga bækurnar tvær upp mynd af alsæiskenndu og kúgandi valdakerfi sem Weinstein kom upp í kringum sjálfan sig, neti lögfræðinga, einkaspæjara, málaliða, fjölmiðlakontakta, launaðra ráðgjafa og aðstoðarmanna sem höfðu það eitt að markmiði að vernda Weinstein, þagga niður óþægileg mál. Það var í krafti þessarar vandvirknislega smíðuðu skjaldborgar sem Weinstein gat áratugum saman gengið berserksgang í gegnum Hollywood, svitnandi sloppa-apinn sem trylltur þaut um hótelganga og ruddist inn í lífi ótal ungra kvenna, með viagra sprautuna í annarri og framatækifæri í hinni.

Að Harvey Weinstein væri kynferðislegt rándýr var alþekkt í bransanum. Einhver lét þau orð falla að það var eins og Weinstein væri nauðgari að atvinnu en ræki kvikmyndafyrirtæki sem hobbí. Atvinnunauðgarinn var samt skynsamur, iðjan sem hann hafði helgað krafta sína var snemma fyrirtækjavædd með nútímalegum hætti, Weinstein var alla tíð umkringdur starfsfólki hvurs starfsvettvangur snerist um að tryggja að Weinstein gæti nauðgað á hverjum degi. Það þurfti að bóka fundi með ungum konum, tilvonandi stjörnum – á veitingahúsi á hóteli til dæmis. Það hljómar eins og öruggur staður. Þar sem fundurinn er klukkan tíu um morguninn verður þetta bara létt, salat kannski, en svo verður fljótt ljóst að Harvey er seinn, mjög seinn.

Að lokum kemur aðstoðarmaður að borðinu, ung kona, alveg eins og þú sjálf, kannski sú sama og hringdi og bókaði fundinn, og segir þér að Harvey sé fastur í áríðandi símtali við Bill Clinton, eða Gwyneth, eða Quentin, eða, eða, alltaf einhver ofsalega merkilegur. En fundinum verður ekki aflýst, biddu fyrir þér, hún ætlar að fylgja þér upp á herbergi, einfaldast að hafa fundinn bara þar, og svo fer hún og þú ert ein inni á hótelherbergi með Harvey. Sama eða önnur kona tekur svo á móti þér, grátandi og í taugaáfalli þegar þú kemur út úr herberginu klukkustund síðar, fötin rifin, meikið út um allt, og passar að þú komist út úr hótelinu og upp í leigubíl. Þá hefst samskiptaprógram sem aðstoðarfólkið sér líka um, það er hringt í þig, skilaboð berast, jafnvel gjafir, Harvey er að fíla þig rosalega, allt gengur vel, er þér sagt. Svo lengi sem þú segir ekkert og sérstaklega ef þú ert tilbúin til að hitta hann aftur.

Og svo, löngu seinna, rennur upp fyrir þér að þú varst fundurinn klukkan tíu – tíu fyrir hádegi. Það var auðvitað annar „fundur“ síðdegis og sá þriðji kannski um kvöldið. Þetta var kaldrifjuð nauðgunarvél, dulbúin sem hópur af fólki sem átti að heita að starfaði fyrir kvikmyndafyrirtæki, og hún rann fimlega eftir sporunum árum og áratugum saman.

Já, allir vissu og fjölmiðlar vissu þetta líka og atlögur voru gerðar að því að afhjúpa Weinstein, sem innan blaðamannastéttarinnar var kallaður „hvíti hvalurinn“, ferlíkið sem allir vilja landa, sjálfur Moby Dick, en ávallt urðu menn frá að hverfa, þetta var of erfitt, of dýrt, alsæisnetið hans Weinstein var of erfitt viðureignar. Það var ómögulegt að fá fórnarlömbin til að koma fram opinberlega. Fjölmiðlarnir sjálfir höfðu ekki efni á að standa straum af svona löngu verkefni samhliða því að engisprettufaraldur í formi lögfræðinga hafði skyndilega skollið á fyrirtækinu.

En það er í ársbyrjun 2017 sem Ronan Farrow, þá sérstakur rannsóknarfréttaritari hjá NBC sjónvarpsstöðinni, fær það verkefni að skoða sögufrægasta og sömuleiðis útataðasta sófann í Hollywood, „framasófann“ eða „the casting couch“ eins og hann er kallaður á ensku. Sófinn er hér líkingamál fyrir kynferðislegt hagkerfi þar sem ungar leikkonur skipta á kynlífi fyrir hlutverk í kvikmyndum, nokkuð sem í Hollywood hafði viðgengist eiginlega alltaf, var hálfpartinn búið að normalísera, og endurspeglaði með heldur kaldhömruðum hætti valdaafstæðurnar í draumaborginni. Tilefnið var að leikkonan Rose McGowan hafði þá nýverið tvítað um að hafa verið nauðgað af ónefndum „stúdíóforstjóra“. Farrow hefur samband við McGowan sem segir honum vafningalaust að gerandinn sé Weinstein, en hún er samt ekki tilbúin til að nafngreina hann opinberlega. Í kjölfarið tekur Farrow að skoða fleiri mál og brátt liggur löng saga áþekkra brota fyrir.

Kantor og Twohey eru á þessum sama tíma að vinna að hliðstæðri rannsókn, einmitt líka að reyna að ná sambandi við McGowan en ólíkt Farrow geta þær ekki bara slegið á þráðinn. Þegar haft er samband við þekkta leikara og stjörnur, útskýra þær í bókinni sinni, er vaninn að fara í gegnum umboðsmenn og kynningafulltrúa, nokkuð sem kom ekki til greina í þessu tilviki.

En Farrow átti ekki í neinum vandræðum, enda þekkti hann McGowan fyrir, og í framrás sinnar bókar hringir hann líka í Meryl Streep og nær af henni tali meðan hún er að elda kvöldmat. Hann er reyndar ansi oft í símanum, að spjalla við þessa stjörnuna eða hina – en það reynist auðvitað mikilvægt, þetta er veröldin hans Weinstein, fórnarlömbin voru öll í sporbaug Hollywood  – og kemur þá að því að minnast verður á bakgrunn þessa unga manns.

Ronan Farrow er sonur Miu Farrow og Woody Allen, hann ólst upp í miðri hringiðu Hollywood, en ólíkt sumum öðrum lagði stjörnumprýdda skeiðin sem hann fæddist með ekki metnað hans og skapgerð að velli, heldur virðist Farrow hálfgert undrabarn; útskrifaðist fimmtán ára með sitt fyrsta háskólapróf, tuttugu eins sem lögfræðingur frá Yale, fékk stöðu í utanríkisþjónustunni og starfaði með Richard Holbrooke í Afganistan og Pakistan, áður en hann varð sérstakur ráðgjafi Hillary Clinton meðan hún gegndi stöðu utanríkisráðherra. Árið 2012 hóf hann doktorsnám við Oxford, og hafði þá í hjáverkum sent frá sér bók um hnignun milliríkjasamskipta í nútímanum, og haldið úti daglegum sjónvarpsþætti á NBC. Pulitzer verðlaunin hlaut hann sama ár og hann lauk doktorsnáminu. Hann er rúmlega þrítugur í dag.

En þarna má jafnframt greina helsta muninn á bókunum tveimur, She Said og Catch and Kill. Síðarnefnda bókin eftir Farrow skautar léttar yfir, nýtir sér frásagnarbyggingu spennutryllisins, meðan New York Times blaðakonurnar skrifa örlítið hefðbundnari bók, kannski aðeins þurrari. Fyrir utan það að eiga langan og sérstaklega farsælan feril að baki og hafa verið meðal færustu blaðamanna New York Times um árabil, njóta Kantor og Twohey góðs af því að hafa stærsta dagblað og einn stærsta fjölmiðil í heimi á bak við sig, sem felur í sér að fjöldi ritstjóra helgar sig þeim meðan á skrifunum stendur, þær hafa her af aðstoðarmönnum, geta unnið lungan af ári að þessari einu grein, sem reynist vera 3.300 orð þegar hún birtist, og ferðast um víða veröld. Þetta er lúxus sem fæstu fjölmiðlafólki býðst, en þetta er jafnframt forsenda þess að fréttamennska á þessu kalíberi sé unnin. En það er ekki síst sú staðreynd að bækurnar eru mjög ólíkar sem gerir þær að jafn aðlaðandi lestvennur og raun ber vitni.

Og hvað með Harvey Weinstein og hans karllægu og siðblindu veröld? Er það ekki sigur fyrir réttlætishugsjónir af ýmsu tagi að hann sé nær óhjákvæmilega á leið í fangelsi? Jú, vissulega, en hann á bak við rimla er ekki kerfisbreyting, valdaafstæðurnar sem settu hann í stöðuna sem hann var í gagnvart öllum þessum konum hafa ekki breyst, sætið sem losnaði við fall hans var auðvitað fyllt af öðrum karlmanni um leið. Öðruvísi karlmanni vonandi, aðeins minna skrímsli. Maður getur alltaf vonað. En hlutirnir breytast aldrei á einni nóttu, það segir fólk stundum, en viðkvæðið ætti náttúrlega heldur að vera að hlutirnir breytist sjaldnast á áratug og oftast taki það aldarfjórðung eða tvo. En hlutirnir breytast að lokum, og það er í krafti svona viðburða. Að glamúrgríman hafi verið rifin af Harvey Weinstein, að heimsbyggðin verði nú vitni að falli hans – það er sannarlega stórsögulegur viðburður.

Tengdar fréttir

Norður Ameríka

Harvey Weinstein dæmdur í 23 ára fangelsi

Sjónvarp

„Þessi saga er ekki bara um Harvey Weinstein“

Menningarefni

Áhrif sakfellingar Weinsteins

Erlent

Segir sakfellingu Weinsteins senda sterk skilaboð