Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

KSÍ krefst fjár frá borginni vegna tugmilljóna útgjalda

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

KSÍ krefst fjár frá borginni vegna tugmilljóna útgjalda

21.02.2020 - 10:39
Knattspyrnusamband Íslands fer fram á að Reykjavíkurborg komi til móts við sambandið með fjárframlagi vegna kostnaðar sem fylgir landsleiks Íslands og Rúmeníu á Laugardalsvelli 26. mars í umspili um sæti á Evrópumóti karla í sumar. Umframkostnaður vegna framkvæmdar leiksins, miðað við hefðbundinn heimaleik, getur numið um 70 milljónum króna vegna aðgerða sem þarf að grípa til vegna árstíma.

Í bréfi sem Guðni Bergsson, formaður KSÍ, sendi Degi B. Eggertssyni borgarstjóra vegna kostnaðar við leikinn kemur fram að þar sem Reykjavíkurborg sé aðaleigandi vallarins og samstarfsaðili KSÍ um rekstur hans, ætti borgin að styrkja aðgerðirnar með fjárframlagi.

„Með þessu sýnir Reykjavíkurborg stuðning sinn við íslenska landsliðið og fótboltann almennt og hjálpar til við að það náist að leika þennan mikilvæga leik á Laugardalsvellinum í mars komandi,“ segir í bréfi Guðna. 

Steinullin kostar fjórar milljónir

Í aðgerðaráætlun KSÍ fyrir leikinn, sem lögð hefur verið fyrir borgarráð, er gert ráð fyrir aðgerðum í þremur fösum. Í fyrsta fasa er stefnt að því að leggja dúk og steinullareinangrun yfir völlinn, ef aðstæður leyfa. Kostnaður við dúkinn sem fluttur er til landsins nemur rúmum 3,8 milljónum. Steinullin kostar fjórar milljónir og gert er ráð fyrir að kostnaður við viðbótar starfsmenn á Laugardalsvelli vegna þessa nemi fimm milljónum. 

Allar aðgerðir í fyrsta fasa, þar sem einnig má nefna aðkeypta sérfræðiþjónustu og rafmagns vegna flóðljósa, er áætlaður rúmar 23 milljónir króna.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hitatjald var einnig sett yfir völlinn fyrir umspilsleik 2013.

Hitatjald og tilkostnaður fyrir tæpar 35 milljónir

Í öðrum fasa er gert ráð fyrir að dúkur og einangrun sé fjarlægð af vellinum og hitatjald, sem leigt er að utan, sé sett yfir og heitu lofti blásið þar undir eftir því sem aðstæður leyfa. Leiga á hitatjaldinu í þrjár vikur er rúmar 15 milljónir, en auk þess kostar þrjár milljónir að flytja það til landsins og rúmar 3,6 milljónir fara í aðflutningsgjöld og skatta. Þá kostar rafmagn fyrir hitablásara í þrjár vikur rúmar 5,2 milljónir og gas til upphitunar 4,5 milljónir.

Vinna við hitatjaldið krefst sólarhrings vakta á vellinum og nemur kostnaður við flug, hótel og bílaleigubíl fyrir starfsmenn sem fylgja dúknum þrjár milljónir króna. 

Allar aðgerðir í öðrum fasa, þar sem einnig má nefna kostnað við snjómokstur á milljón og tæplega þriggja milljóna í gáma til að mynda skjól á vellinum, er áætlaður tæpar 43 milljónir króna.

Milljón í sérstakar veðurspár frá Veðurstofunni

Aðgerðir í lokafasanum fyrir leik snúast um að fjarlægja hitadúkinn, loka varamannaskýlum svo hægt sé að hita þau og meðhöndla völlinn fyrir leik. Þar munar mest um milljón í snjómokstur, en kostnaður við allar aðgerðir í þessum lokafasa eru áætlaðar rúmlega þrjár milljónir króna.

Í gegnum allt ferlið er svo gert ráð fyrir rúmlega 2,7 milljónum króna sem fer í vöktun. Sett verður upp veðurstöð við völlinn og víðtækt samráð verður við Veðurstofu Íslands. Gert er ráð fyrir því að Veðurstofan gefi út sérspár fyrir völlinn og nemur kostnaður við það um einni milljón. 

Samtals er því gert ráð fyrir um 70 milljóna króna kostnaði við framkvæmd leiksins sem einungis kemur til vegna árstíma og aðstæðna. 

Í bréfi formanns KSÍ til borgarstjóra, sem fylgdi aðgerðaráætluninni, ítrekar hann einnig að Laugardalsvöllur í núverandi mynd, án hitalagna undir grasi og opinn til tveggja átta, henti engan veginn breytingum á leikjafyrirkomulagi karlalandsliðsins þar sem liðið má ekki leika heimaleiki í mars og nóvember í riðlakeppni stórmóta vegna aðstæðna.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Staðan á Laugardalsvelli er óvenjugóð miðað við árstíma, en enn er langt í leik.

Tengdar fréttir

Fótbolti

Fjórir kostir til skoðunar vegna Laugardalsvallar

Fótbolti

Sex vikur í Rúmenaleikinn - kostnaður KSÍ 64 milljónir

Íþróttir

Forseti Íslands: „Þurfum nýjan völl og nýja höll“

Fótbolti

„Ef tíðin er slæm getur þetta verið mjög erfitt“