KSÍ: Fyrirkomulag sem hefur verið við lýði í áraraðir

Mynd með færslu
 Mynd: Thomasz Kolodziejski - RÚV

KSÍ: Fyrirkomulag sem hefur verið við lýði í áraraðir

08.02.2020 - 10:15
KSÍ hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna umfjöllunar um mun á greiðslu fyrir dómgæslu hjá körlum og konum. Þar er því gert skil hvernig leikjum og mótum sé raðað í flokka eftir erfiðleikastigo.

Í yfirlýsingunni vill Knattspyrnusambandið koma því á framfæri að þegar kemur að niðurröðun á leiki á mótum KSÍ sé horft á erfiðleikagráðu, í flokki 1 eru mest krefjandi leikirnir og svo koll af kolli. Þá sé horft til margra þátta þegar lagt sé mat á erfiðleikastig tiltekins mót. Samskonar fyrirkomulag sé hjá UEFA og FIFA.

Dómarar þurfi að undirgangast líkamleg próf til að sannreyna að þeir uppfylli þau skilyrði sem gerð eru til viðkomandi erfiðleikastigs. Þá sé andlegur þáttur tekinn til greina: „Á leikjum í flokki 1 er meiri ákefð og meiri grimmd, meiri harka og meira andlegt álag vegna áreitis frá leikmönnum, þjálfurum og öðrum aðstandendum liðanna, svo ekki sé minnst á þátt áhorfenda og þeirrar rýni á störf dómara sem fram fer í fjölmiðlum." Þá standi KSÍ straum af öllum kostnaði við dómgæslu í mótum meistaraflokka og annars flokks.

Sjá einnig: Fá 135% meira fyrir að dæma hjá körlunum en konunum
 

Þá segir jafnframt í tilkynningunni að fyrirkomulagið hafi verið við lýði í áraraðir hér á landi sem og víðast hvar í Evrópu. Til samanburðar má þess geta að bæði HSÍ og KKÍ greiða dómurum jafn mikið fyrir dómgæslu í efstu deild karla og kvenna og í öðrum deildum.

Knattspyrnusambandið hefur undanfarna daga orðið fyrir gagnrýni vegna þessa fyrirkomulags og Mist Edvardsdóttir, leikmaður Íslandsmeistara Vals, sagði til að mynda að þetta væri vanvirðing við kvenleikmenn og til þess fallið að konur fái ekki jafn góða dómgæslu og karlar í sömu deild.

Tengdar fréttir

Fótbolti

„Vanvirðing og ömurlegt í rauninni“

Íslenski fótboltinn

Fá 135% meira fyrir að dæma hjá körlunum en konunum